Sendu varðskip norður vegna jarðskjálftanna

Varðskipið Þór er nú við Eyjafjörð og mun vera til …
Varðskipið Þór er nú við Eyjafjörð og mun vera til taks ef þörf er á aðstoð vegna aukinnar skjálftavirkni við Norðurland. Ljósmynd/Guðmundur Birkir Agnarsson

Varðskipið Þór er nú statt við mynni Eyjafjarðar og mun vera til taks á svæðinu skyldi þurfa einhverja aðstoð vegna atburða sem gætu átt sér stað í tengslum við aukna skjálftavirkni út af Norðurlandi. Þetta segir Ásgeri Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við 200 mílur.

Áhöfnin á Þór var ásamt hópi sjálfboðaliða að taka þátt í hreinsunarverkefninu „hreinni Hornstrandir“ um helgina. „En í gærmorgun var tekin sú ákvörðun að senda skipið í átt að Norðurlandi til þess að hafa það þar til taks,“ segir Ásgeir.

Þór lagði af stað klukkan 08:40 frá Ísafirði og var kominn á Eyjafjarðarsvæðið um kvöldmatarleyti. Þar bíður varðskipið átekta, að sögn Ásgeirs. Hann segir ekkert sérstakt viðbúnaðarstig vera í gildi og að skipið sé við hefðbundin eftirlitsstörf, en í ljósi aðstæðna þótti rétt að skipið væri við Norðurland.

mbl.is