Bjarni: Rafmagnshlaupahjól ótrúlega mikil breyting

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á blaðamannafundi um nýja út­gáfu af aðgerðaáætl­un …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á blaðamannafundi um nýja út­gáfu af aðgerðaáætl­un í loft­lags­mál­um. mbl.is/Kristinn Magnússon

Raf­magns­hlaupa­hjól, eða svo­kallaðar raf­magns­skút­ur, voru of­ar­lega í huga Bjarna Bene­dikts­son­ar fjár­málaráðherra í er­indi hans þegar ný aðgerðaáætl­un stjórn­valda í lofts­lags­mál­um var kynnt í dag. Sagði hann slík tæki hafa breytt ferðavenj­um mikið og að þau væru í takt við tækni­breyt­ing­ar og að notk­un þeirra muni vaxa í framtíðinni.

Sagði Bjarni að nú væri fólk á ferð á tækj­um sem þess­um um alla borg. „Gott ef fólk er ekki farið að fara milli borg­ar­hluta og sveit­ar­fé­laga á raf­knún­um hlaupa­hjól­um að reka er­indi,“ sagði hann og bætti við að gott væri að nota þessa lausn til að ná bet­ur mark­miðum um að draga úr los­un kol­efna.

Rafmagnshlaupahjól njóta sífellt meiri vinsælda hér á landi sem og …
Raf­magns­hlaupa­hjól njóta sí­fellt meiri vin­sælda hér á landi sem og víðar um heim. mbl.is/​Hari

Bjarni boðaði einnig aukið sam­starf með at­vinnu­grein­um lands­ins til að ná mark­miðum um að draga úr los­un og til­tók sér­stak­lega að komið hefði ákall frá sjáv­ar­út­veg­in­um um að ná ár­angri í orku­skipt­um. Sagði hann að horfa ætti til sam­starfs þar og ekki endi­lega not­ast við „refsi­vönd“ held­ur að horfa á málið þannig að hægt sé að leysa það sam­an.

Í til­kynn­ingu sem birt er á vef Stjórn­ar­ráðsins um fund­inn í dag seg­ir Bjarni enn­frem­ur: „Við erum að ná alþjóðleg­um skuld­bind­ing­um okk­ar og gott bet­ur – ekki með því að leggja strang­ar kvaðir á heim­il­in og at­vinnu­lífið held­ur með fjöl­breyttri flóru aðgerða sem ná víða um sam­fé­lagið og ýta und­ir þá þróun sem þegar á sér stað í átt að lofts­lagsvænna hag­kerfi. Fram­reikn­ing­ar á los­un draga fram að aðgerðir stjórn­valda og tækniþróun hafa nú þegar leitt til þess að los­un gróður­húsaloft­teg­unda mun minnka á næstu ára­tug­um, en með aðgerðaáætl­un­inni er lagður grunn­ur að enn meiri ár­angri.“

mbl.is