Hver bátur landað átta tonnum

Það virðist hafa verið fín veiði hjá strandveiðibátunum í ár …
Það virðist hafa verið fín veiði hjá strandveiðibátunum í ár og hefur hver löndun verið 652,8 kíló að meðaltali. mbl.is/Alfons Finnsson

Fleiri bátar eru á strandveiðum í ár heldur en verið hefur, en 614 bátar hafa landað afla frá því strandveiðitímabilið hófst og eru það 27% fleiri bátar en höfðu landað á sama tíma 2018 þegar þeir voru 483 og 11% fleiri en árið 2019 þegar þeir voru 555.

Strandveiðibátarnir hafa nú landað 4.919 tonnum frá því að tímabilið hófst í maí og eru það rétt rúmlega 44% af þeim 11.100 tonnum sem strandveiðibátum hefur verið úthlutað í sumar, að því er fram kemur í gögnum Fiskistofu. Tveir mánuðir, júlí og ágúst, eru eftir af tímabilinu.

Miðað við fjölda báta hefur hver bátur landað rétt rúmlega átta tonnum að meðaltali. Þá hafa umræddir 614 bátar landað 7.536 sinnum og er því landað að meðaltali 652,8 kílóum við hverja löndun.

Af þeim afla sem bátunum er úthlutað eru tíu þúsund tonn í þorski og hafa bátarnir komið með 4.481 tonn að landi sem er tæplega 45% af heimiluðum afla. Af þúsund tonna heimild í ufsa hefur 403 tonnum verið landað og 24 tonnum af 100 í Gullkarfa.

mbl.is