Tillaga hönnunarteymisins Formatyka varð hlutskörpust í samkeppni Hönnunarmiðstöðvar Íslands og Borgarlínunnar um götugögn, þ.e. bekki, upplýsingaskilti, skýli o.s.frv., á Borgarlínustöðvar.
Alls bárust 16 tillögur í samkeppnina, en tillaga Formatyka, sem samanstendur af þeim Krystian Dziopa og Iga Szczugiel, sem ber yfirskriftina Lifa, njóta, ferðast — endurtaka, var valin af dómnefnd.
„Tillagan skapar nútímalega táknmynd fyrir Borgarlínu framtíðarinnar og býr til sterkt kennileiti í umhverfinu sem eykur á gæði almenningsrýma. Tillagan byggir á fjölhæfu einingarkerfi og því er auðvelt að laga hana að fjölbreyttum aðstæðum innan borgarlandslagsins.
Öll götugögn eru að fullu aðlöguð og felld inn í tillöguna á snjallan hátt. Efnisval, áferðir og litir vinna vel saman og lífga upp á bæjarbraginn. Einstök tillaga með vandaðar lausnir á aðgengi allra,“ segir í umsögn dómnefndar, sem skipuð var Þráni Haukssyni, Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur, Björgu Fenger og Rut Káradóttur.
Með götugögnum er átt við hluti á borð við bekki, upplýsingaskilti, ruslatunnur, ljósastaura og minni skýli, en tilgangurinn með samkeppninni var að til verði banki af götugögnum sem hægt er að velja úr eftir þörfum á hverri stöð. Götugögnin, sem einkenna munu Borgarlínustöðvarnar í öllum sveitarfélögum, eiga að hafa samræmt og einkennandi yfirbragð sem mun stuðla að betri og heildstæðari borgarbrag auk þess að bæta upplifun notandans.
Annað sætið í samkeppninni hlaut tillagan Taktur eftir Önnu Leoniak og Bjarna Kristinsson en þriðja sætið hlotnaðist þeim Karli Kvaran, Lilju Kristínu Ólafsdóttur og Sahar Ghaderi með tillöguna Línan. Alls bárust 16 tillögur í samkeppnina en þrjár þeirra hlutu verðlaun, auk þess sem dómnefnd veitti þrem teymum sérstaka viðurkenningu fyrir vel útfærðar tillögur.