Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær endurbætur á lögreglulögum landsins með 236 atkvæðum gegn 181. Ólíklegt þykir þó að ný lög fái brautargengi í öldungadeild þingsins, auk þess sem Bandaríkjaforseti hefur hótað því að beita neitunarvaldi á lögin, gangi þau í gegn.
Lagafrumvarp þetta var samið vegna og heitir eftir Bandaríkjamanninum George Floyd sem var drepinn við handtöku í Minneapolis í Minnesota 25. maí síðastliðinn, en táknrænt þykir að lagafrumvarpið hans hafi verið samþykkt nákvæmlega mánuði eftir dauða hans.
Meðal þeirra lagabreytinga sem frumvarpið kveður á um eru þær að lögreglumenn verði gerði persónulega ábyrgir fyrir það tjón sem þeir valda, bann verði lagt við svokölluðum „no-knock“-húsleitarheimildum og stöðvun á flæði umframhernaðarbúnaðs frá Bandaríska hernum til lögreglunnar.
Demókratar eru í meirihluta í fulltrúadeildinni þar sem lagabreytingafrumvarpið var samþykkt, en ólíklegt þykir að það fái hljómgrunn í öldungadeildinni þar sem repúblíkanar ráða ríkjum, en þeir höfðu þegar lagt fram sínar eigin lagabreytingatillögur í tengslum við dauða Floyd.
Bæði lagabreytingafrumvörpin kveða á um bann við notkun lögreglu á hálstaki, nýtt verklag við þjálfun lögregluþjóna, aukningu á notkun líkamsmyndavéla og landlægt skráningarkerfi yfir lögregluþjóna sem sakaðir hafa verið um hegðunarbrot, en demókratar telja frumvarp repúblíkana ekki munu vernda svarta Bandaríkjamenn.