Leikkonan Jennifer Aniston segir að það hafi tekið sig langan tíma að losna við karakterinn Rachel Green. Aniston fór með hlutverk Green í þáttunum Friends í tíu ár frá 1994-2004.
„Ég gat ekki fyrir mitt litla líf komið Rachel Green út úr hausnum á mér,“ sagði Aniston í viðtali við Hollywood Reporter í vikunni.
„Ég gat ekki flúið Rachel í Friends; þættirnir eru alltaf í sýningu, og maður hugsar bara: „Hættið að sýna þess andskotans þætti,““ sagði Aniston.
Hún segist hafa átt í stríði við sjálfa sig um hver hún væri í kvikmyndaiðnaðinum og langað að sýna og sanna að hún væri meira en bara Rachel Green. Hlutverkið í kvikmyndinni The Good Girl hafi veitt sér tækifæri til þess.
„The Good Girl var fyrsta kvikmyndin þar sem ég gat virkilega losað mig við persónu Rachel og horfið inn í karakter sem ég líktist ekkert, það var mjög frelsandi fyrir mig,“ sagði Aniston.
Hún segist þó oft hafa fengið kvíðaköst yfir því að hún væri bara stelpan í lítilli New York-íbúð með fjólubláum veggjum. Með tíð og tíma hafi hún þó komist að því að hún gæti gert meira en að leika í Friends.