Um 100 til 150 manns komu saman á kyrrðarstund við Bræðraborgarstíg nú klukkan sex. Þar var fólk saman komið til að votta þeim sem létust í bruna þar fyrir helgi virðingu sína og til þess að sýna samúð og samhug með þeim sem eiga um sárt að binda eftir eldsvoðann.
Virðing var í loftinu á kyrrðarstundinni og þögnin allsráðandi ef frá eru talin nokkur minningarorð sem flutt voru. Þau sem á kyrrðarstundina komu voru mörg hver með blóm sem lögð voru upp að húsinu sem brann. Kyrrðarstundin var á vegum íbúa Vesturbæjar og nágranna þeirra í gamla Vesturbænum.
Eins og áður hefur komið fram létust þrjú í brunanum en ekki hefur tekist að bera kennsl á þau með óyggjandi hætti. Þá missti fjöldi fólks heimili sitt, í það minnsta sex pólskir ríkisborgarar.
Ljóst er að fólk er slegið vegna brunans en í gær var efnt til samstöðufundar á Austurvelli, þar sem athygli var vakin á bágri aðstöðu erlends verkafólks á Íslandi. Að því loknu leiddi lögregla göngu að húsinu og bauðst fólki að votta þeim látnu og aðstandendum þeirra virðingu sína með því að leggja blóm við húsið.