Bannað að selja plaströr frá næsta sumri

Óheimilt verður að selja eða afhenda plaströr frá og með …
Óheimilt verður að selja eða afhenda plaströr frá og með næsta ári. AFP

Bannað verður að selja eða af­henda án end­ur­gjalds einnota plast­vör­ur á borð við plaströr og einnota hnífa­pör frá 3. júlí á næsta ári. Þetta er meðal þess sem kveðið er á um í lög­um um holl­ustu­hætti og meng­un­ar­varn­ir, sem samþykkt voru á Alþingi fyrr í vik­unni og byggj­ast á til­skip­un Evr­ópuþings­ins og -ráðsins frá því í fyrra­sum­ar.

Und­ir bannið falla all­ar vör­ur á borð við baðmullarp­inna, hnífa­pör, diska, sogrör, hrærip­inna fyr­ir drykkjar­vör­ur, prik sem ætluð eru til að festa við blöðrur, matarílát úr frauðplasti og drykkjarílát úr frauðplasti. Þá er skil­yrðis­laust bann sett við sölu eða af­hend­ingu vara úr plasti sem er niður­brjót­an­legt með oxun, en notk­un slíks plasts hef­ur auk­ist til muna und­an­far­in ár. Bannið nær þó ekki til plast­vara sem flokk­ast sem lækn­inga­tæki.

Þá er í lög­un­um einnig kveðið á um að einnota drykkjarílát með tappa eða loki úr plasti megi aðeins af­henda ef lokið er áfast ílát­inu á meðan notk­un stend­ur yfir. Þá skulu einnota plast­flösk­ur fyr­ir drykkjar­vör­ur inni­halda lág­marks­hlut­fall af end­urunnu plasti, 25% árið 2025 og 30% frá og með ár­inu 2030.

Sam­kvæmt töl­um frá ár­inu 2016 nota Íslend­ing­ar um 15.029 tonn af plast­umbúðum á ári hverju, og jafn­gild­ir það rúm­um 40 kíló­grömm­um á hvert manns­barn. Aðeins um 42% þess plasts skilaði sér til end­ur­vinnslu árið 2016, en 4,4% í brennslu til ork­u­nýt­ing­ar. Ára­tugi, ef ekki ald­ir, get­ur tekið fyr­ir plast að brotna niður í nátt­úr­unni.

mbl.is