Hvorki skipstjórnarmenn né vélstjórar á Herjólfi munu ganga í störf háseta og þerna á meðan verkfallsaðgerðum félagsmanna í Sjómannafélagi Íslands stendur, að því er fram kemur í sameiginlegri yfirlýsingu Félags skipstjórnarmanna og Félags vélstjóra og málmtæknimanna.
„Það er grunnkrafa launafólks að fá að semja um sín kjör og beita verkfallsvopninu ef það þarf. Það er öllum ljóst sem þekkja til að á meðan á verkfalli stendur hjá hásetum og þernum mun skipið ekki sigla.“
Félagsmenn í Sjómannafélagi Íslands sem vinna hjá Herjólfi lögðu niður störf í einn sólarhring í gær vegna kjaradeilu félagsins og Herjólfs ohf. Frekari vinnustöðvanir eru fyrirhugaðar en skipið siglir ótruflað í dag.