Einn helsti handritshöfundur Fox News, Blake Neff, hefur látið af störfum eftir að hafa birt rasísk ummæli og karlrembu á netinu.
Neff starfaði við þátt Tucker Carlson, Tonight. Hann lét af störfum á föstudag eftir að CNN fjallaði um færslur Neff sem birtar voru undir dulnefni.
Þar kom fram að Neff notaði afar óviðeigandi orðalag og talsmáta á spjallrás sem nefnist AutoAdmit. Færslurnar voru skrifaðar undir dulnefninu CharlesXII.
The top writer for Fox News host Tucker Carlson has for years been using a pseudonym to post bigoted remarks on an online forum that is a hotbed for racist, sexist, and other offensive content, CNN Business learned this week https://t.co/sUeYUGzhOl
— CNN (@CNN) July 11, 2020
Í yfirlýsingu frá Fox News er færslunum lýst sem hryllilegum og afar móðgandi. Carlson hefur ekki tjáð sig um málið að því er fram kemur í frétt BBC. Hann muni aftur á móti gera það í þættinum á mánudagskvöldið.
CharlesXII tjáir sig meðal annars um svarta og asíska Bandaríkjamenn og konur. Hann segir að sennilega sé það besta forvörnin gegn glæpum að halda svörtum innanhúss að spila tölvuleikinn Call of Duty.
Hann ræðst einnig á nafngreinda konu og birtir meðal annars persónulegar upplýsingar um hana á spjallrásinni.