Fylgjast grannt með kjaradeilu skipverja Herjólfs

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfs­menn embætt­is rík­is­sátta­semj­ara fylgj­ast vel með kjara­deilu skip­verja Herjólfs í Sjó­manna­fé­lagi Íslands og Herjólfs ohf. sem nú stend­ur yfir og fund­ur verður boðaður þegar þörf verður á því seg­ir Aðal­steinn Leifs­son rík­is­sátta­semj­ari í sam­tali við mbl.is.

Önnur vinnu­stöðvun af þrem­ur boðuðum hefst á miðnætti í kvöld og mun standa yfir í tvo sól­ar­hringa. Að óbreyttu mun þriðja vinnu­stöðvun­in hefjast aðfaranótt 21. júlí og standa yfir í þrjá sól­ar­hringa.

Deiluaðilar funduðu miðviku­dag­inn 8. júlí en komust lítt áleiðis. Jón­as Garðars­son, formaður Sjó­manna­fé­lags Íslands, sagði í sam­tali við mbl.is í gær að Sjó­manna­fé­lagið hefði boðið Herjólfi ohf. mála­miðlun til að fresta vinnu­stöðvun­inni en að henni hefði verið hafnað.

Eru í sam­bandi við deiluaðila

„Frest­un ein og sér er ekki að gera neitt fyr­ir okk­ur,“ sagði Guðbjart­ur Ell­ert Jóns­son, fram­kvæmd­ar­stjóri Herjólfs ohf., í sam­tali við mbl.is í gær­kvöldi. Hann seg­ir að á fund­um samn­inga­nefnda hafi komið fram kröf­ur frá Sjó­manna­fé­lag­inu í tíu liðum sem voru þess eðlis að ekki var hægt að ræða þær neitt frek­ar.

„Við fylgj­umst vel með, erum í sam­bandi við deiluaðila og boðum fund þegar við telj­um að það sé ár­ang­urs­ríkt,“ seg­ir Aðal­steinn í sam­tali við mbl.is.

mbl.is