Starfsmenn embættis ríkissáttasemjara fylgjast vel með kjaradeilu skipverja Herjólfs í Sjómannafélagi Íslands og Herjólfs ohf. sem nú stendur yfir og fundur verður boðaður þegar þörf verður á því segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.
Önnur vinnustöðvun af þremur boðuðum hefst á miðnætti í kvöld og mun standa yfir í tvo sólarhringa. Að óbreyttu mun þriðja vinnustöðvunin hefjast aðfaranótt 21. júlí og standa yfir í þrjá sólarhringa.
Deiluaðilar funduðu miðvikudaginn 8. júlí en komust lítt áleiðis. Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, sagði í samtali við mbl.is í gær að Sjómannafélagið hefði boðið Herjólfi ohf. málamiðlun til að fresta vinnustöðvuninni en að henni hefði verið hafnað.
„Frestun ein og sér er ekki að gera neitt fyrir okkur,“ sagði Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdarstjóri Herjólfs ohf., í samtali við mbl.is í gærkvöldi. Hann segir að á fundum samninganefnda hafi komið fram kröfur frá Sjómannafélaginu í tíu liðum sem voru þess eðlis að ekki var hægt að ræða þær neitt frekar.
„Við fylgjumst vel með, erum í sambandi við deiluaðila og boðum fund þegar við teljum að það sé árangursríkt,“ segir Aðalsteinn í samtali við mbl.is.