„Það er allt hið tíðindalausasta á vígstöðvunum,“ segir Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar Sjómannafélags Íslands spurður um viðræður félagsins við Herjólf ohf. Félagsmenn Sjómannafélags Íslands leggja niður störf á miðnætti og stendur vinnustöðvunin yfir í tvo sólarhringa.
Á meðan henni stendur mun Herjólfur ekki sigla. Deilan er komin á borð ríkissáttasemjara og segir Jónas enga fundi fyrirhugaða.
Félagsmenn Sjómannafélags Íslands hafa áður lagt niður störf í einn sólarhring, sjöunda júlí síðastliðinn. Þá er þriðja vinnustöðvunin áætluð frá miðnætti 28. júlí, ef deiluaðilar ná ekki saman. Sú vinnustöðvun mun standa yfir í þrjá sólarhringa.
Jónas segir Sjómannafélag Íslands standa fast á sínum kröfum. Höfuðkrafan er sú að fullur vinnumánuður verði styttur um 25% án launaskerðingar.