Framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. telur að það að sigla gamla Herjólfi í verkfalli félagsmanna Sjómannafélags Íslands á Herjólfi sé ekki verkfallsbrot, málið snúist einfaldlega um að halda þjóðveginum frá Eyja til lands opnum.
Félagsmenn Sjómannafélags Íslands sem starfa á Herjólfi lögðu niður störf í gær og stendur verkfallið í tvo sólarhringa eða fram til miðnættis í nótt. 2/3 hluta undirmanna Herjólfs eru í Sjómannafélagi Íslands en Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, segir að áhöfnin sé þó fullmönnuð í dag með starfsmönnum sem starfa nú þegar hjá Herjólfi, þar á meðal sumarstarfsmönnum og þeim sem vinna í afleysingum. Þó er ekki hægt að halda kaffiteríunni opinni í dag þar sem flestir starfsmenn hennar eru í sjómannafélagi Íslands.
Fram að þessu hefur Herjólfur ekki siglt í vinnustöðvunum félagsmanna Sjómannafélags Íslands sem hafa alls verið tvær upp á síðkastið.
Spurður hvers vegna ákvörðun hafi verið tekin um að sigla gamla Herjólfi frekar en þeim nýja segir Guðbjartur:
„Það er eiginlega tvennt sem kemur til. Annars vegar það að það er verið að gera aðeins við nýja Herjólf. Við erum komin með erlenda aðila sem eru að vinna aðeins í honum. Hann er að fara í slipp núna í september þannig að það er verið að nýta tímann og vinna aðeins í honum.“
Guðbjartur segir þó ekki um stórar viðgerðir að ræða og nýi Herjólfur muni sigla utan vinnustöðvana.
„Hann verður klár í siglingar en tíminn var bara nýttur. Það er verið að fara yfir hurðir og annan búnað, þar á meðal lyftu um borð í skipinu sem hefur verið að trufla okkur aðeins.“
Hitt sem kemur til tengist vaktstöðuskírteinum sem er krafa um að vera með á nýja Herjólfi.
„Það er ekki krafa á gamla Herjólfi þegar siglt er í Landeyjahöfn. Það þýðir þá að við getum mannað skipið með starfsmönnum úr öðrum stéttarfélögum en sjómannafélagi Íslands sem eru í vinnu.“
Guðbjartur segir að það sé mikilvægt fyrir Vestmanneyinga að reglulegum siglingum sé haldið áfram til og frá Eyjum, þrátt fyrir verkfall.
„Við erum aðallega að tryggja að þjóðvegurinn sé opinn og þó fólk þurfi að sleppa kaffibollanum þá verður svo að vera, alla vega í dag.“
Aðspurður segir Guðbjartur að þó nokkrir séu fastir í Eyjum sem hafi ætlað sér upp á land.
„Þetta hefur valdið miklum óþægindum fyrir íbúa. Fólk er að sækja í alla nauðsynlega þjónustu til Reykjavíkur og má þar til að mynda nefna heilbrigðisþjónustu svo menn þurfa að hafa það í huga líka.“
Guðbjartur telur ekki um verkfallsbrot að ræða. „Við erum ekki að brjóta neinn rétt, við erum með fólk í vinnu þrátt fyrir að það sé verkfall hjá hluta starfsfólks. Maður virðir þennan rétt en á okkur hvílir mikil ábyrgð að tryggja að þjóðvegurinn sé opinn.“