Brim selur Norðanfisk – Bæjarstjórinn meðal hluthafa

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi er meðal kaupenda í …
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi er meðal kaupenda í Norðanfiski. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brim hefur selt allt hlutafé í sjávarútvegsfyrirtækinu Norðanfiski á Akranesi til hóps fjárfesta sem allir eiga rætur á Akranesi. Meðal hluthafa er núverandi bæjarstjóri Akraness, Sævar Freyr Þráinsson. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Brim. Kaupsamningurinn var undirritaður í lok maí, en allir fyrirvara eru nú uppfylltir.

Starfsmenn Norðanfisks eru um 30 talsins, en félagið sérhæfir sig í framleiðslu, sölu og dreifingu á sjávarfangi til veitingahúsa á innanlandsmarkaði ásamt sölu neytendapakkninga í verslunum um allt land.

Kaupandi fyrirtækisins er nýtt eignarhaldsfélag í eigu tíu aðila sem allir eiga rætur á Akranesi auk framkvæmdastjóra Norðanfisks, Sigurjóns Gísla Jónssonar, sem áfram mun stýra fyrirtækinu.

Formaður stjórnar verður Inga Ósk Jónsdóttir en hún og eiginmaður hennar Gísli Runólfsson eru stærstu hluthafar í eignarhaldsfélaginu sem kaupir. Auk framangreindra hluthafa koma að nýju eignarhaldsfélagi: Bifreiðastöð ÞÞÞ, Eignarhaldsfélag VGJ í eigu hjónanna Eiríks Vignissonar og Ólafar Ólafsdóttur, hjónin Karen Jónsdóttir og Kristján Baldvinsson, Gestur Breiðfjörð Gestsson auk fjögurra jafnaldra úr árgangi 1971, þeirra Sævars Freys Þráinssonar, Harðar Svavarssonar, Jóns G Ottóssonar og HH verktaks sem er í eigu Hannesar Birgissonar og Hjartar Lúðvíkssonar.

Ráðgjafar í söluferlinu voru Sævar Freyr, KPMG og Örn Gunnarsson hjá Lex lögmannsstofu. Þá voru Íslensk verðbréf ráðgjafi fyrir hönd Brims og stýrðu söluferlinu.

mbl.is