Mótmælendur í Kentucky í Bandaríkjunum hafa hafið hungurverkfall og krefjast réttlætis handa Breonnu Taylor, svartri konu sem drepin var af lögreglu á heimili sínu í mars.
Þúsundir Bandaríkjamanna lögðu niður störf og gengu út af vinnustöðum sínum í dag til að mótmæla kynþáttafordómum, ójöfnuði og ofbeldi lögreglu, en verkföllin eru nýjustu aðgerðir mótmælenda, sem mótmælt hafa í að verða tvo mánuði, eða síðan George Floyd var drepinn er lögreglumaður kraup á hálsi hans við handtöku 25. maí.
Samkvæmt skipuleggjendum verkfallanna ætla tugir þúsunda að leggja niður störf hið minnsta hluta úr degi í 25 borgum.
Fjórir mótmælendur eru í hungurverkfalli í Louisville í Kentucky, en þeir krefjast þess að tveir lögregluþjónar sem komu að dauða Taylor verði reknir úr starfi og sviptir lífeyrisréttindum sínum. Þriðja lögregluþjóninum hefur þegar verið vikið úr starfi, en hann hefur áfrýjað ákvörðuninni.
Taylor var skotin átta sinnum af lögreglumönnum sem ruddust inn í íbúð hennar í Louisville 13. mars. Þeir voru með húsleitarheimild í tengslum við fíkniefnarannsókn en engin fíkniefni fundust í íbúðinni, og raunar var lögregla hvorki að eltast við Taylor né unnusta hennar, heldur beindist málið að einstaklingi sem þegar var í haldi lögreglu þegar innrásin átti sér stað.
Posted by Hunger Strikers for Breonna on Monday, July 20, 2020