Sjómannafélag Íslands hefur aflýst vinnustöðvun sem hefjast átti á miðnætti í kvöld eftir að samkomulag náðist á milli félagsins og Herjólfs ohf. um viðræðuáætlun.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjómannafélaginu, en vinnuáætlunin er eftirfarandi: í fyrsta lagi á að klára starfslýsingu þerna og háseta, í öðru lagi á að skoða forsendur starfsaldurshækkana, í þriðja lagi á að skoða vinnutímastyttingu lífskjarasamningsins með sérfræðingum aðila, í fjórða lagi á að skoða forsendur launahækkunar miðað við lífskjarasamning með sérfræðingum aðila og í fimmta lagi á að koma á hvíldaráætlun í samræmi við alþjóðalög.
Stefnt er að því að viðræðum þessum verði lokið fyrir mánudaginn 17. ágúst.
Þriðja vinnustöðvun undirmanna á Herjólfi átti að hefjast á miðnætti í kvöld og standa í þrjá sólarhringa, eða til miðnættis miðvikudagsins 23. júlí. Fyrsta vinnustöðvunin fór fram 7. júlí og stóð í sólarhring og önnur hófst á miðnætti 14. júlí og stóð í tvo sólarhringa, en þá ákváðu forsvarsmenn Herjólfs að sigla þess í stað Herjólfi III.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Farþegar athugið // Attention passengers !
Posted by Herjólfur ohf - Herjólfur ohf ferry on Monday, July 20, 2020