Dómstóll í Namibíu hefur hafnað beiðni Bernards Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra landsins, og Tamson Hatuikulipi, tengdasonar hans, um lausn úr gæsluvarðhaldi gegn tryggingu. Munu þeir því áfram sitja í varðhaldi. Frá þessu greinir namibíski miðillinn Namibian.
Að mati dómsins er ekki ástæða til að ætla að þeir myndu stinga af eða spilla rannsókninni ef þeir yrðu látnir lausir. Hins vegar bendi sönnunargögn til sektar þeirra.
Rannsókn stendur enn yfir á meintum mútum Samherja í Namibíu til handa stjórnmálamanna og tengdra aðila til að fá hestamakrílkvóta þar í landi á undirverði. Málið komst í sviðsljósið eftir umfjöllun Stundarinnar, Kveiks, Al Jazeera og Wikileaks í fyrra.
Þá er rannsókn sögð hafin á skattamálum Samherja í Namibíu. OCCRP, samtök rannsóknarblaðamanna sem sérhæfa sig í umfjöllun um glæpi og spillingu, greina frá þessu en RÚV greinir frá fyrst íslenskra miðla.
Rannsóknina má að sögn rekja til eiðsvarinnar yfirlýsingar Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi starfsmanns fyrirtækisins í Namibíu, til namibísku spillingarlögreglunnar.
Segir Jóhannes að fyrirtækið hafi flutt rúman milljarð króna til félaga á Máritíus og Bretlandi til að komast hjá skattgreiðslum. Það hafi félagið gert með því að greiða fyrirtækinu umdeild og óljós „gjöld“, en einnig hafi félagið selt fisk undir kostnaðarverði til fyrirtækja á Kýpur.
Í tilkynningu Samherja vegna umfjöllunar OCCRP segir að um endurtekið efni um starfsemi Samherja í Namibíu sé að ræða. Segir Samherji umfjöllunina villandi og bendir á fjögur atriði sem séu rangfærslur eða þarfnist nánari skýringa.