Lögreglan í Minneapolis í Bandaríkjunum segir að maður, sem kallaður hefur verið Regnhlífarmaðurinn og hefur sést til að valda skemmdarverkum meðan á mótmælum gegn kynþáttafordómum hefur staðið, tengist hópum hvítra þjóðernissinna.
Mótmælt hefur verið í Bandaríkjunum í um tvo mánuði í kjölfar þess að George Floyd var drepinn í haldi lögreglu er lögreglumaður kraup á hálsi hans og aðrir stóðu hjá, en það er talið hafa verið kornið sem fyllti mæli margra Bandaríkjamanna sem lengi hafa sakað lögreglu um ofbeldi gagnvart lituðum Bandaríkjamönnum.
Samkvæmt lögreglunni í Minneapolis var það Regnhlífarmanninum að stóru leyti að kenna að mótmæli sem voru friðsæl urðu ofbeldisfull.
Myndskeið af manninum að brjóta búðarglugga með hamri fór í dreifingu á netinu, og er hann talinn hafa sett fordæmi fyrir aðra með skemmdarverkunum, en þannig var kveikt í verslun, sem hann hafði brotið glugga í, síðar um kvöldið.