Bjarni Ólafsson AK, skip útgerðarinnar Runólfs Hallfreðssonar, kom til hafnar í Neskaupstað í gær með um 960 tonn af makríl, en Bjarni kemur úr Síldarsmugunni, eða rúmlega 300 mílna leið frá Neskaupstað.
Á vef Síldarvinnslunnar kemur fram að skip hafi verið að taka 150-250 tonna hol eftir að veiði glæddist á miðvikudaginn. Haft er eftir Þorkeli Péturssyni, stýrimanni á Bjarna, að eftir talsverða leit hafi loksins fundist blettur þar sem veiði var að hafa. Makríllinn hafi verið heldur minni en áður fékkst, eða um 450 grömm að meðaltali á móti 500 grömmum áður.
Auk íslenskra skipa voru þarna einnig rússnesk og grænlensk skip við veiðar.
Beitir NK er svo næsta skip sem dælt er um borð í í Síldarsmugunni sem landar hjá Síldarvinnslunni. Allavega fimm önnur skip eru nú að veiðum á svæðinu og nokkur einnig á leiðinni þangað.