Týr við eftirlit í Síldarsmugunni

Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Týr, varðskip Landhelgisgæslunnar, hefur verið við eftirlit í Síldarsmugunni síðan á fimmtudag. Í morgun voru sjö íslensk uppsjávarskip á svæðinu en í síðustu viku voru þau flest 14.

Alls hafa verið auðkennd 27 skip og voru öll með leyfi til veiða. Varðskipsmenn héldu til eftirlits í eitt skip. Var þar allt í sóma og ekkert að athuga. Ekki fiskaðist sérstaklega vel svo flest skipin voru farin á ferðina þegar Týr yfirgaf svæðið í gærkvöld. Voru skipin á veiðum um 300 sjómílur austur af strönd.

Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Allmörg ár eru síðan íslenskt varðskip var síðast við eftirlit í Síldarsmugunni. Landhelgisgæslan sinnir alþjóðlegum eftirlitsskyldum á svæðinu sem aðili að Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðinu (NEAFC).

mbl.is