Björg Magnúsdóttir, sjónvarpsstjarna og handritshöfundur, var á ferð og flugi í sumar. Hingað til hefur hún meira tileinkað sér alþjóðleg ferðalög en í ár skipti hún um gír líkt og fleiri sem búa á þessari eyju. Hún uppgötvaði laxveiði og varð himinlifandi yfir fegurðinni í Ásbyrgi. Þess á milli naut hún þess að drekka kaffi með góðum vinum og slappa af.
Finnst þér ferðalög innanlands skemmtileg?
„Mjög. Það er svo ótrúlega mikið af stöðum í boði, bæði faldar og augljósar perlur sem má heimsækja. Maður fyllist eiginlega valkvíða! Á síðustu árum hef ég verið með alþjóðlegri fókus í ferðalögum eins og margir en í ljósi aðstæðna hefur verið kærkomið og dýrmætt að kynnast eigin landi betur,“ segir Björg.
Hverjir eru þínir uppáhaldsstaðir?
„Erfitt að velja en af þeim sem ég heimsótti í sumar langar mig fyrst að nefna Ásbyrgi. Náttúrufegurðin þar er engu lík, sem og reyndar skáldsagan um áttfættan hest Óðins, sem á að hafa trampað niður fæti þar og búið skeifuna til. En staðurinn á skuldlaust skilið allt hrós sem hann fær, bókstaflega mögnuð tilfinning að standa neðan við klettana og horfa yfir tjörnina. Þetta er svo fallegt að maður hugsar bara: hvað er eiginlega í gangi hérna!? Hinn staðurinn sem ég var mjög ánægð með er Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti. Þar hefur arkitekt landsins aldeilis vandað sig, sérstaklega finnst mér stuðlabergsrammarnir kringum fossinn glæsilegir.“
Að hverju ætti fólk að huga að í sumarfríinu sínu?
„Að ætla sér ekki of mikið. Það á líka að bera virðingu fyrir afslöppun og þeim sem vilja bara hanga með vinum, lesa eða drekka kaffi. Það er klárlega taug í mér sem dýrkar að slæpast í fríinu í stað þess að djöflast yfir einhvern fjallshrygg í grenjandi rigningu með allt á bakinu.
En ef fólk er á annað borð komið um borð í húsbílalestina, þá finnst mér skemmtilegur siður að leita uppi efni sem tengist svæðum sem eru heimsótt, hvort sem það er tónlist eða bækur, Íslendingasögur eða Skímó – og lesa eða spila eftir þörfum.“
Hvað hefur komið þér mest á óvart í sumarfríinu í sumar?
„Aldrei í lífinu hefði ég giskað á að ég fílaði laxveiði! Ég prófaði það nokkrum sinnum í sumar og fannst það ferlega skemmtilegt.“
Gerðir þú eitthvað í sumar sem þig langar ekki að gera aftur?
„Það er auðvelt að svara þessu, þar sem ég fékk Þursabit eða Skessuskot, eins og það heitir líka, hvar ég var stödd á Hótel Búðum. Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar ég var að standa upp úr stól. Og vá hvað þetta er miðaldra og líka 100 prósent viðbjóður. Á einu augabragði hætti ég að vera skvísa á leið að skoða Snæfellsjökul og breyttist í grenjandi gamalmenni sem þurfti hjálp við að klæða mig. Þetta langar mig aldrei að upplifa aftur.“
Finnst þér skipta miklu máli að skemmta sér í sumarfríinu?
„Já, bara eins og í lífinu almennt. En svo er kannski breytilegt hvað fólk kallar skemmtun. Ef sumarfrí inniheldur samveru með fjölskyldu og vinum, hlátursköst, nægan svefn, nýjar upplifanir, gæði í mat, drykk og afþreyingu myndi ég gefa því fríi 10 stig af 10 mögulegum enda er það margrannsakað að allt ofantalið eykur hamingju og vellíðan.“
Hvernig leggst veturinn í þig?
„Bara mjög vel. Eins mikið og ég dýrka að vera eins og belja að vori þessar björtu sumarvikur, finnst mér líka mega kósí að geta aftur kveikt á kertum á kvöldin án þess að virðast siðblind. Og þótt samfélagið sjálft sé pínu skrýtið og allir að finna sig í nýjum veruleika, vaknar fólk úr dái á haustin og rútínan tekur við. Dýrka það. Silfrið á sunnudögum og fullkomnar sumarfrísmyndir hætta að valda kvíða hjá venjulegu fólki.“