„Vissulega er dálítið leiðinlega langt að fara“

Börkur NK er á leið til Neskaupstaðara með 1.660 tonn …
Börkur NK er á leið til Neskaupstaðara með 1.660 tonn af makríl úr Smugunni. Veiðin gekk vel að sögn skipstjóra. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Góð hol feng­ust í Smugunni um helg­ina þar sem skip voru á mak­ríl­veiðum. Síðan hef­ur þó hægt á veiðunum eft­ir að mak­ríll­inn hef­ur í aukn­um mæli sótt í norska og fær­eyska lög­sögu, að því er fram kem­ur í færslu á vef Síld­ar­vinnsl­unn­ar. „Mak­ríll­inn, sem skip­in eru að fá, er ágætt hrá­efni til vinnslu. Hann er ým­ist heilfryst­ur, hausaður eða flakaður,“ seg­ir í færsl­unni.

„Þetta er fín­asti mak­ríll, en hann er held­ur smærri en verið hef­ur. Þarna er mest um að ræða 380-400 gramma fisk. Það var þokka­legt veiðiveður á miðunum en vissu­lega er dá­lítið leiðin­lega langt að fara,“ er haft eft­ir Hjörv­ari Hjálm­ars­syni, skip­stjóra á Berki.

Til hafn­ar með góðan afla

Íslensku skip­in eru ekki mörg eft­ir í Smugunni enda héldu þau til hafn­ar með góðan afla. Þá er verið að landa 1.100 tonn­um úr Bjarna Ólafs­syni AK í Nes­kaupstað og er Börk­ur á leið þangað til lönd­un­ar með 1.660 tonn. Beit­ir NK yf­ir­gaf Smuguna með 1.800 tonn til hafn­ar í Fuglaf­irði í Fær­eyj­um og Mar­grét EA með 1.200 tonn til Kolla­fjarðar sem einnig er í Fær­eyj­um.

„Við fiskuðum í þess­ari veiðiferð 2.130 tonn á 28 tím­um. Það er býsna gott. Afl­inn fékkst í fimm hol­um en við sett­um afl­ann úr fyrsta hol­inu um borð í Beiti,“ seg­ir Hjörv­ar.

„Mak­ríll­inn á svæðinu, sem við vor­um á, var að síga inn í norska og fær­eyska lög­sögu en það var líka að fást ágæt­ur afli nokkru norðar. Auðvitað von­ast menn til að það gangi mak­ríll inn í ís­lenska lög­sögu en menn gefa sér ekki mik­inn tíma til að leita á meðan hann gef­ur sig í Smugunni,“ út­skýr­ir hann.

mbl.is