Gagnrýna Samherja harðlega

Alma Ómarsdóttir er formaður Félags fréttamanna.
Alma Ómarsdóttir er formaður Félags fréttamanna.

Stjórn Félags fréttamanna gagnrýnir harðlega að stórfyrirtækið Samherji skuli veitast að persónu Helga Seljan fréttamanns með „ómaklegum hætti“. 

Myndband fyrirtækisins, sem birt var í dag, virðist hafa verið unnið til þess eins að vekja efasemdir um réttmæta umfjöllun fjölmiðla um málefni fyrirtækisins.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Félagi fréttamanna.

Þar segir enn fremur að það sé áhyggjuefni að forsvarsmenn stórfyrirtækja, sem fjölmiðlar fjalli eðlilega um, skuli velja að reyna að gera einstaka fjölmiðlamenn tortryggilega í stað þess að svara efnislega þeim atriðum sem fram hafi komið í umfjöllun fjölmiðla um starfsemi fyrirtækisins. Það veki jafnframt áhyggjur að fyrirtækið skuli birta slíkar ávirðingar í gervi heimildaþáttar og grafa þannig undan fjölmiðlum almennt.

Þekkt er víða um heim að fjársterkir aðilar beiti ýmsum aðferðum til að vekja efasemdir um fréttaflutning sem að þeim snýr. Það skapar þá hættu að grafið sé undan trausti á fjölmiðlum og að fjölmiðlar veigri sér við að fjalla um einstaka aðila. Af því er mikil hætta búin fyrir lýðræðislegt samfélag sem byggir á því að almenningur fái að vita hvað ráðamenn í stjórnmálum og áhrifamenn í viðskiptum og atvinnulífi aðhafast. Slíkt hefur legið í loftinu síðan Kveikur, Stundin og Al Jazeera fjölluðu um Samherjaskjölin síðastliðið haust,“ segir í yfirlýsingunni.

Stjórn Félags fréttamanna lýsir einnig undrun sinni og vonbrigðum með að sumir fjölmiðlar hafa tekið algjörlega gagnrýnislaust upp ásakanir og framsetningu í myndbandi stórfyrirtækisins sem birt var í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina