Ríkisútvarpið hafnar ásökunum

Það er líklega einsdæmi að stórfyrirtæki leggi í persónulega herferð gegn blaðamanni með áratugareynslu, skrifa Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV.

Í yfirlýsingu hafna Stefán og Rakel þeim ásökunum sem bornar eru á fréttamanninn Helga Seljan og RÚV, þar sem því er haldið fram að þau hafi falsað gögn við gerð Kastljóssþáttar árið 2012. Þá segja þau rangt að skýrsla Verðlagsstofu, sem umfjöllunin byggðist á, hafi aldrei verið til.

Segja þau þessa grófu árás Samherja þjóna þeim eina tilgangi að skaða mannorð fréttamanns RÚV, sem hafi hvorki falsað gögn né átt við þau, sem og trúverðugleika fréttastofunnar.

„Kerfisbundin atlaga gegn fréttamiðlum til að verjast gagnrýninni umfjöllun er ekki ný af nálinni en sú aðferð sem Samherji beitir nú gengur mun lengra en þekkst hefur hér á landi. Það er umhugsunarvert. Helgi Seljan er einn öflugasti rannsóknarblaðamaður landsins og hefur kallað yfir sig reiði hagsmunaaðila með vinnu sinni, og nú herferð stórfyrirtækis gegn mannorði hans og æru. RÚV fordæmir þessa aðför sem gerð er að fréttamanninum með tilhæfulausum ásökunum.“

mbl.is