Varðskipið Týr kom til hafnar í Reykjavík í morgun eftir að hafa sinnt eftirliti í Smugunni auk hefðbundinna löggæslustarfa innan íslensku efnahagslögsögunnar í rúmlega tvær vikur. Ferðin hófst á Seyðisfirði og sigldi skipið rúmar 1.500 sjómílur, að því er fram kemur á vef Landhelgisgæslunnar.
Fram kemur að áhöfnin á Tý hafi farið í eftirlitsferðir um borð í sex íslensk skip innan og utan lögsögunnar. Jafnframt var haft afskipti af jafnmörgum skipum vegna ýmiskonar mála, meðal annars þurfti að vísa tveimur í land þar sem bátar þeirra voru komnir langt yfir leyfilega útiveru.
Fjöldi æfinga voru haldnar eins og venja er í ferðum varðskipa Landhelgisgæslunnar. Tveir kafarar voru um borð og gafst tækifæri á Siglufirði til þess að halda köfunaræfingu. Viðbrögð við eldsvoða voru æfð og öflugri háþrýstidælu með slökkvibyssu komið fyrir í Loka, léttbát varðskipsins, auk annars búnaðar sem notaður var til slökkvistarfa. Loki bar um eitt tonn af búnaði og mannskap en náði þrátt fyrir þyngdina 25 hnútum.