Ekki enn svarað erindi Samherja

Útvarpsstjóri segir að erindi Samherja muni vera svarað.
Útvarpsstjóri segir að erindi Samherja muni vera svarað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefán Ei­ríks­son út­varps­stjóri seg­ir að ekki sé búið að svara er­indi Sam­herja frá í gær þar sem lögmaður Sam­herja fór fram á að skýrsla, sem notuð var sem aðal­gagn í um­fjöll­un Kast­ljóss um Sam­herja árið 2012, verði af­hent lög­manni fyr­ir­tæk­is­ins. Lögmaður Sam­herja seg­ir í bréf­inu að af­hendi RÚV ekki skýrsl­una inn­an fimm daga muni mál­inu skotið til úr­sk­urðar­nefnd­ar upp­lýs­ingalaga. Útvarps­stjóri seg­ir að verið sé að und­ir­búa svar við er­indi Sam­herja.

 „Við erum auðvitað bara að vanda okk­ur við þetta eins og í öllu öðru sem við tök­um okk­ur fyr­ir hend­ur.“ Þetta sagði út­varps­stjóri í sam­tali við mbl.is í dag. Hann sagði jafn­framt að er­indi lög­manns Sam­herja verði svarað en að það svar sé bara í vinnslu. „Þetta eru bara gögn frá stjórn­valdi sem um ræðir og þessi gögn eru al­veg til, það fer ekk­ert á milli mála.“

Sam­herji birti á dög­un­um mynd­band þar sem Helgi Selj­an, fréttamaður RÚV, er sakaður um að hafa falsað um­rædd gögn við gerð kast­ljósþátt­ar þar sem fjallað var um meint brot Sam­herja á gjald­eyr­is­lög­um.

Gögn­in sem um ræðir komu frá Verðlags­stofu skipta­verðs og hef­ur sú stofn­un staðfest að gögn­in séu til. Þau hafi verið „excel-skjal“ en ekki eig­in­leg skýrsla.

Helgi Selj­an hef­ur áður sagt að gögn­in í mál­inu hafi verið birt áður. Þau hafi bæði verið sýnd í kast­ljósþætti þann 27. mars 2012 og einnig í mynd­bandi Sam­herja þar sem brot úr kast­ljósþætt­in­um er sýnt. Þar bregður gögn­un­um fyr­ir. Þetta ít­rekaði Stefán Ei­ríks­son út­varps­stjóri í sam­tali við mbl.is í dag.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina