Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, kveðst í samtali við 200 mílur ekki trúa öðru en að RÚV verði við beiðni fyrirtækisins um að afhenda lögmanni fyrirtækisins gögn frá Verðlagsstofu skiptaverðs, sem Kastljós lagði til grundvallar umfjöllunar árið 2012, um meinta sölu Samherja á karfa til dótturfélags erlendis á undirverði.
„Ég get ekki séð af hverju útvarpsstjóri á að vera ámóti því. Þetta snertir alla þjóðina, eins og þeir segja, að fá að vita á hverju þeir byggja þessa þætti sína. Þannig að ég trúi ekki öðru en að útvarpsstjóri bregðist hratt og vel við því að veita þessi gögn,“ segir Þorsteinn Már.
„Guðmundur Ragnarsson [fyrrverandi formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna] er búinn að upplýsa um það að hann hafi þessi gögn og ég sé ekki af hverju við getum ekki fengið þau, eða Morgunblaðið eða aðrir, þegar Guðmundur Ragnarsson segist hafa þau,“ bætir hann við.
Guðmundur sat í Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna og hefur sagst hafa fengið umrædd gögn í hendur þegar hann sat í nefndinni.