Hlé hefur verið á makrílvinnslu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum frá því á fimmtudaginn var, en nú hefst vinnsla á ný í kjölfar þess að Kap kom til hafnar í Vestmannaeyjum með 930 tonn í morgun, að því er fram kemur á vef Vinnslustöðvarinnar. Þar segir jafnframt að Ísleifur VE sé á landleið með 1.100 tonn.
„Heldur brösuglega gekk hjá okkur fyrstu tvo sólarhringana. Við leituðum að makríl í Síldarsmugunni, út undir mörkum norskrar lögsögu en fundum lítið. Svo röðuðu skipin sér upp og leituðu skipulega norður eftir, fundu fisk og köstuðu. Margir fengu 400 tonn og allt að 600 tonnum. Hörkuveiði sem sagt á þeim bletti. Þetta er mjög fínn fiskur með litla átu,“ er haft eftir Jóni Atla Gunnarssyni, skipstjóra á Kap VE.
„Ísleifsmenn eru 16-18 tímum á eftir okkur. Þeir komu beint í veiðina á svæðið þar sem við vorum fyrir og fengu mjög góðan afla þar og á öðrum bletti,“ segir Jón Atli og útskýrir að makrílveiðin geti verið talsverður leit og eltingaleikur þar sem allur flotinn kemur til veiða á þeim makrílblettum sem finnast.
„Núna vorum við það nálægt lögsögumörkum Noregs að makríllinn gat farið inn í norska lögsögu í skjól og komið svo aftur út í Smuguna á öðrum stöðum. Síldarsmugan er mjög stór og ekki auðvelt að finna blettina þar sem fiskurinn heldur sig á hverjum tíma. Á landleiðinni núna sáum við til að mynda vaðandi makríl í Smugunni miðri, hátt í 100 mílur frá þeim stað þar sem við vorum við veiðar.“