Norski olíusjóðurinn, sem er stærsti fjárfestingarsjóður heims sem er í ríkiseigu, tapaði 188 milljörðum norskra króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Það svarar til 2.887 milljarða íslenskra króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabanka Noregs.
Ástæðan fyrir tapinu er lækkun á hlutabréfaverði í kjölfar kórónuveirukreppunnar en 69,6% af fjárfestingum sjóðsins er í hlutabréfum.
Í lok júní var sjóðurinn metinn á 10,4 billjónir norskra króna (milljón milljónir) sem er aukning frá fyrsta ársfjórðungi er markaðsvirðið var 9,98 billjónir norskra króna.
Nicolai Tangen, milljarðamæringur sem stofnaði AKO Capital-vogunarsjóðinn í London, á að taka við sem sjóðsstjóri af Yngve Slyngstad sem er að fara á eftirlaun 1. september. Valið hefur verið gagnrýnt vegna stöðu Tangens og mögulegra hagsmunatengsla sem og að hann hafi nýtt sér skattaskjól fyrir eigin fjárfestingar.