Ingunn Agnes Kro er ungur stjórnandi, með rætur úr Grýtubakkahreppi, sem vill færa skilvirknishugsun viðskiptalífsins yfir á baráttuna gegn hlýnun jarðar. Hún fór hringinn í kringum landið í sumar með manni sínum og þremur dætrum. Á ferðalaginu komst hún að því að hún hefði yfirfært áráttu móður sinnar að sýna sér og systrum sínum allar kirkjur landsins yfir á að sýna eigin dætrum alla fossa landsins, með sömu takmörkuðu undirtektunum. Hún er stjórnarmaður hjá Iceland Seafood, HS Orku, Sjóvá og Votlendissjóðinum. Samhliða því stundar hún MBA-nám við Háskóla Íslands.
Hver eru áhugamálin þín?
„Áhugamálin eru fjölmörg. Þau eru reyndar svo mörg að ég sinni engu þeirra vel. Á móti kemur að ég næ með þeim að hitta ólíkt og skemmtilegt fólk sem er í raun það sem mér finnst skemmtilegast. Það sem ég brenn þó fyrir þessa dagana eru loftlagsmál og minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis – með því að fylla upp í skurði.“
Hvernig var sumarið þitt?
„Sumarið mitt var algjörlega einstakt. Ég þori varla að segja frá því. Ég hef ekki átt svona mikinn frítíma yfir sumarið frá því að ég var barn. Enda naut ég sumarsins til hins ítrasta. Ég fór í hestaferð og veiðiferð með frábærum hópum auk árlegrar óvissuferðar æskuvinkonuhópsins. Þá fórum við fjölskyldan hringinn í kringum landið og samt náði ég að bera á allan skjólvegginn.“
Fórstu á skemmtilega staði í sumarfríinu þínu?
„Á hringnum heimsóttum við staði sem ég hafði hugsað með nostalgíu til í lengri tíma. Til dæmis Vík í Mýrdal og Atlavík við Lagarfljót. Mér fannst líka einstaklega gaman að koma á Siglufjörð og sjá þá upplyftingu sem bærinn hefur fengið. Þá var ég búin að gleyma því hvað það er afskaplega fallegt í Fljótunum, á norðanverðum Tröllaskaganum.“
Hvað myndir þú ekki gera aftur – sem þú hefur gert í sumar?
„Ég er ekki mikið að vinna með eftirsjá. Það er hægt að gera gott úr flestum kringumstæðum og mistök eru bara tækifæri til að gera betur næst. Við vorum til dæmis svo óheppin að það rigndi á okkur örugglega 70% tímans á hringferðinni. Þá bara horfir maður nær sér á fegurð náttúrunnar við fæturna á sér. Þar er oft að finna alveg magnaðan arkitektúr. Svo er hægt að njóta góðs félagsskapar hvernig sem viðrar. Þetta er kannski pínu óþolandi Pollýönnu-nálgun en hún hefur alltaf hentað mér. Enda með eindæmum geðgóð manneskja.“
Hvað finnst þér um íslenska náttúru?
„Það sem er svo dásamlegt við íslenska náttúru er hvað það er stutt í hana. Ég bý í Grafarholtinu og get gengið götuna mína á enda og yfir hól og er þá komin í ósnortna náttúru. Eins finnst mér íslensk náttúra svo skemmtilega fjölbreytt.
Það sem hins vegar allir mættu vita er að náttúran þar að segja mýrar sem hafa verið þurrkaðar með skurðum bera ábyrgð á um 60% losunar koltvísýrings á Íslandi. Yfir helmingi þessa lands mætti breyta aftur í mýrar og þannig stöðva losunina. Losun sem ella hefði haldið áfram árlega fyrir hvern sentimetra af dýpt skurðarins. Einfalt en gríðarlega áhrifaríkt.“
Hvernig hefur sú áhersla að ferðast meira innanlands lagst í þig?
„Virkilega vel. Við erum svo lánsöm að búa í þessu fallega landi og það er algjör synd að maður nýti ekki betur tækifærin sem í því liggja. Fólk leggur fyrir og ferðast langar leiðir til að skoða landið okkar en við þurfum í raun ekki að gera mikið annað en að setjast upp í bíl.“
Hvernig leggst veturinn í þig?
„Veturinn leggst vel í mig. Skólinn er að byrja og það eru spennandi verkefni framundan í fyrirtækjunum sem ég sit í stjórn hjá. Eitt verkefnið er að auka vitneskju um og stuðning við úrræðið um að endurheimta votlendið. Þar þigg ég allar tillögur. Hugsanlega væri ein leið að reyna að fá FKA – félag kvenna í atvinnurekstri til liðs við mig. Konur eru almennt meðvitaðari um samfélagsleg mál en karlmenn. Þetta segi ég viljandi. Nú vænti ég þess að holskefla sárreiðra samfélagslega ábyrgra karlmanna hafi samband við mig og bjóðist til þess að leggja Votlendissjóðinum lið.“