Hrefnuveiðar við Noreg hafa gengið betur í ár heldur en fjögur síðustu sumur. Nú er búið að veiða 462 hrefnur af 1.272 dýra kvóta. Í fyrra veiddust 429 dýr og var vertíðin sú lélegasta í 20 ár. Byrja mátti veiðarnar 1. apríl og stunduðu tólf bátar hrefnuveiðar í sumar. Enn eru tveir bátar að veiðum, en vertíðinni er um það bil að ljúka.
Fram kemur á vefsíðu norska Ríkisútvarpsins, NRK Nordland, að verð fyrir hrefnukjöt hafi aðeins hækkað frá síðasta ári og eftirspurn aukist. Áhersla hafi verið lögð á markaðssetningu og gæði vörunnar og það hafi skilað sér.
Í fréttinni kemur fram að Norðmenn hafi verið á faraldsfæti innanlands í sumar og margir lagt leið sína norður á bóginn. Margir sem hafi heimsótt veitingahús í Norður-Noregi hafi bragðað hvalkjöt í fyrsta skipti.
Hvalveiðar eru ekki stundaðar við Ísland í ár, hvorki veiðar á stórhvelum né hrefnu.