„Það er óhætt að segja að þessi krísa hefur verið streituvaldandi fyrir fjölskyldur. Þess vegna er líklegt að við sjáum áhrif á fæðingar,“ segir Arna Olafsson, lektor í fjármálahagfræði við Viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar.
Rannsókn Örnu frá árinu 2016, um heimilislíf og fjárhag fólks í kjölfar hrunsins, bendir til þess að börn, sem voru í móðurkviði þegar fjármálahrunið skall á árið 2008, reyndust líklegri til að fæðast undir meðalþyngd. Slíkt hefur í för með sér skert lífsgæði; svo sem minni líkur á langlífi, lægri tekjur og andleg veikindi. „Það er alveg líklegt að við sjáum slíkt aftur núna,“ segir hún.
Arna segir að þegar rætt er um sóttvarnaaðgerðir gleymist oft að verja hópa á borð við börn í móðurkviði.
„Börnum sem verða fyrir þessum áhrifum í móðurkviði farnast almennt verr í lífinu,“ segir hún. Gild ástæða sé fyrir því að mæðrum sé ráðlagt að forðast streitu á meðgöngu. Heilsufarslegar afleiðingar þessa hafa í för með sér kostnað fyrir samfélagið:
„Það er auðvelt að líta fram hjá kostnaði sem er virkilega til staðar en er erfitt að meta,“ segir hún í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.