Sænski loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg hvatti Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, til að vera hugrökk í baráttunni gegn loftslagsvánni. Thunberg fundaði með Merkel í Berlín í morgun er tvö ár voru liðin, upp á dag, frá því hún skrópaði í skóla í fyrsta sinn til að berjast fyrir aðgerðum í loftslagsmálum. Þau mótmæli áttu síðar eftir að vinda upp á sig og verða að vikulegum föstudagsmótmælum á Mynttorginu í Gamla stan í Stokkhólmi, og síðar um heim allan.
Fundur þeirra Merkel í morgun stóð í 90 mínútur en með í för voru skoðanasystur Thunberg, þær Anuna de Wever og Adelaide Charlier frá Belgíu og Luisa Neubauer frá Þýskalandi, sem allar báru grímu er þær gengu frá aðallestarstöðinni í Berlín að þýska stjórnarráðinu.
Baráttukonurnar hvöttu Merkel til að takast á við kolefnisútblástur með sömu festu og snarræði og gert hefur verið í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. „Við viljum að leiðtogar séu nógu hugrakkir til að hugsa til langs tíma,“ sagði Thunberg við blaðamenn sem biðu hennar að fundi loknum. „Við viljum að leiðtogar rísi upp, taki ábyrgð og líti á loftslagsvána sem alvöru vá.“
Þjóðverjar fara út þetta ár með forsæti í ráðherraráði Evrópusambandsins, og sagði Thunberg að af þeim sökum bæri Merkel „risavaxna ábyrgð“ en hefði jafnframt „gríðarleg tækifæri“ til að hjálpa Evrópusambandinu að standa við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. Merkel sagði eftir fundinn að allar hefðu þær sammælst um að loftslagsbreytingar væru alþjóðleg áskorun sem iðnvædd ríki bæru sérstaka ábyrgð á að takast á við.
Áætlanir Evrópusambandsins gera ráð fyrir að ríki þess verði kolefnishlutlaus árið 2050, eða eftir 30 ár.