Eiginkona manns sem lést í haldi lögreglu hefur kallað eftir nýrri rannsókn á dauða hans eftir að nýtt myndefni úr öryggismyndavél, sem staðsett er í fangaklefanum, var gert opinbert. Einn lögreglumaður virðist heilsa með nasistakveðju í aðdraganda andlátsins á meðan aðrir hlæja.
Maðurinn sem dó, Jozef Chovanec, var frá Slóvakíu og var handtekinn á Charleroi-flugvelli árið 2018 eftir að hafa látið illa í flugi. Í fangaklefanum byrjaði hann að berja höfði sínu harkalega í vegginn þannig að blæddi úr höfði hans.
Hópur lögreglumanna fór inn í klefann og hélt manninum niðri með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund og var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést daginn eftir.
Á myndskeiði sjást nokkrir lögreglumenn hlæja á meðan þeir halda Chovanec niðri og einn þeirra situr á brjósti hans í um það bil 16 mínútur. Á meðan á öllu þessu stóð þá sendi einn lögreglumaðurinn nasistakveðju til einhvers sem stóð fyrir utan klefann, að því er virðist.
„Ég vil vita hvað gerðist og af hverju lögreglumennirnir höguðu sér á þennan hátt,“ sagði eiginkona mannsins, Henrieta Chovanec, í samtali við belgíska dagblaðið Het Laatse Nieuws, sem fékk aðgang að myndefninu.
„Þegar lögreglumennirnir sáu að það blæddi úr honum hefðu þeir átt að veita honum fyrstu hjálp. Í staðinn þá sátu þeir á honum. Hann gat ekki andað,“ bætti hún við. Málið þykir minna á mál George Floyd sem var drepinn af lögreglumanni sem kraup á hálsi hans þangað til hann missti meðvitund og lést.
Chovanec ferðaðist reglulega til Belgíu vegna vinnu sinnar en hann rak starfsmannaleigu sem réð slóvakíska verkamenn til þess að sinna verkefnum í Belgíu.
Fjölskylda hans segist ekki vita hvers vegna hann hagaði sér illa í fluginu og í fangaklefanum en krufning leiddi í ljós að hann hefði ekki verið undir áhrifum áfengis eða lyfja.
Talsmaður saksóknaraembættisins í Charleroi sagði að allir lögreglumennirnir hefðu verið yfirheyrðir en að kórónuveirufaraldurinn hefði tafið fyrir rannsókn málsins. Hann tók það fram að lögreglumanninum sem heilsaði að sið nasista hefði verið sagt upp störfum frá og með deginum í dag, 20. ágúst.