Fékk skyrbjúg eftir tveggja mánaða kjötát

James Blunt
James Blunt Skjáskot/Instagram

Söngvarinn James Blunt segist hafa fengið skyrbjúg eftir tveggja mánaða kjötát. Hann tók upp á því að borða bara kjöt í tvo mánuði á háskólaárum sínum sem uppreisn gegn öllum þeim grænkerum sem umkringdu hann á þeim tíma.

Blunt var að læra verkfræði og félagsfræði. „Í félagsfræðiáföngunum voru mestmegnis stelpur og þær voru upp til hópa vegan eða grænmetisætur,“ segir Blunt í viðtali við Ware. „Ég ákvað því að gerast kjötæta og lifði á hakki, kjúklingi og kannski smá majónesi.“

Sex til átta vikum síðar fór Blunt að finna fyrir afleiðingum breytts mataræðis og þurfti að leita til læknis sem taldi hann vera með skyrbjúg. Skyrbjúgur er ástand sem kemur til vegna skorts á C-vítamíni og má auðveldlega meðhöndla með því að bæta ávöxtum við mataræðið.

„Í kjölfarið fór ég þá að drekka appelsínusafa öll kvöld, og þá fékk ég bakflæði,“ segir söngvarinn.

mbl.is