Sex látnir í skógareldum í Kaliforníu

00:00
00:00

„Við höf­um ekki séð neitt í lík­ingu við þetta í mörg, mörg ár,“ seg­ir Gavin New­som, rík­is­stjóri Kali­forn­íu, um gríðarlega um­fangs­mik­illa skógar­elda í rík­inu. Að minnsta kosti sex eru látn­ir og á annað hundruð þúsund hafa flúið heim­ili sín. New­som hef­ur óskað eft­ir aðstoð frá Ástr­al­íu og Kan­ada.

Afar þurrt er í Kali­forn­íu um þess­ar mund­ir vegna hita­bylgju. Um 12 þúsund eld­ing­ar urðu í rík­inu á 72 klukku­stund­um og talið er að ein­hverj­ar af þeim hafi leitt til þess að kviknaði í gróðri í Norður- og Mið-Kali­forn­íu.

Tveir stærstu eld­arn­ir, kallaðir SCU Lig­hten­ing Comp­l­ex og LNU Lig­hten­ing Comp­l­ex, hafa farið yfir tæp­lega 600 þúsund ekr­ur.

Um 12 þúsund slökkviliðsmenn berjast við skógareldana.
Um 12 þúsund slökkviliðsmenn berj­ast við skógar­eld­ana. AFP

Óska eft­ir aðstoð frá heims­ins bestu slökkviliðsmönn­um

Fleiri en 12 þúsund slökkviliðsmenn berj­ast við skógar­eld­ana og Daniel Berland, aðstoðarslökkviliðsstjóri í Kali­forn­íu­ríki, sagði að slökkvi­starfi miði áfram en að von væri á frek­ari eld­ing­um sem gætu kveikt fleiri elda.

Slökkvilið frá nær­liggj­andi ríkj­um, Or­egon, Nýja-Mexí­kó og Texas, hafa boðið fram aðstoð sína að sögn New­som. En í ljósi þess hversu um­fangs­mikl­ir eld­arn­ir eru og hversu al­var­legt ástandið er sagðist hann hafa óskað eft­ir aðstoð frá „bestu slökkviliðsmönn­um í heimi“ frá Kan­ada og Ástr­al­íu.

„Við erum ekki barna­leg í mati okk­ar á hversu mann­skæðir eld­arn­ir eru og þess vegna er mjög mik­il­vægt að þið farið eft­ir rým­ing­ar­fyr­ir­mæl­um og takið þau al­var­lega,“ sagði New­som við íbúa Kali­forn­íu á blaðamanna­fundi.

AFP
mbl.is