Lánþegar gæti sín á umsóknar- og skilafrestum

Jóhann Gunnar Þórarinsson.
Jóhann Gunnar Þórarinsson.

Gerðar hafa verið miklar breytingar á námslánakerfinu og segir Jóhann Gunnar Þórarinsson að margt sé jákvætt við þá mynd sem núna er á stuðningi stjórnvalda við námsmenn. Jóhann, sem er fráfarandi formaður Sambands íslenskra námsmanna og sat í stjórn LÍN í vetur, hefur í gegnum störf sín fengið góða innsýn í það sem fólki hættir helst til að klikka á þegar kemur að námslánunum.

Það sem námsmenn þurfa að muna öðru fremur er að ganga frá umsóknum og skila öllum nauðsynlegum gögnum fyrir uppgefinn frest. „Það gerist allt of oft að námsmenn gleymi sér og sæki um námslán og undanþágur eftir uppgefinn frest,“ segir hann og bætir við að það sé afskaplega sorglegt þegar svona minniháttar yfirsjón þýðir að námsmenn missi af þeim lánum og undanþágum sem þeir ættu alla jafna rétt á.

Á margan hátt er auðveldara fyrir námsmenn innanlands að skila inn gögnum enda fær sjóðurinn, sem nú heitir Menntasjóður námsmanna, upplýsingar um námsframvindu þeirra með sjálfvirkum hætti og getur sótt tekjuupplýsingar til skattstjóra. „Þeir sem eru í námi erlendis þurfa aftur á móti að skila öllum gögnum inn sjálfir, og stundum gerist það að skipulag námsins erlendis fellur illa að skilafrestum Menntasjóðsins og þarf þá að gera sérstakar ráðstafanir og upplýsa sjóðinn vandlega um stöðuna. Loks getur verið þrautin þyngri fyrir námsmenn erlendis að færa sönnur á að þeir séu tekjulausir en sjóðurinn þarf að vita um allar tekjur.“

Lítið svigrúm fyrir viðbótartekjur

Talandi um tekjur, þá segir Jóhann að það komi lánþegum oft óþægilega á óvart hvernig laun þeirra dragast frá námslánum. Á því skólaári sem nú er að hefjast er miðað við að námsmenn geti haft rúmlega 1,3 milljónir króna í tekjur á árinu án þess að komi til frádráttar, en 45% af öllum tekjum umfram það dragast frá lánaréttindunum í vetur. Þegar við bætist tekjuskattur og útsvar blasir við að ef námsmaður t.d. aflar sér 100.000 kr. umfram viðmið sjóðsins þá kann hann að fá aðeins um fimmtung upphæðarinnar í vasann. „Ef fólk kemur af vinnumarkaði má alla jafna þrefalda frítekjumarkið en fyrir þennan vetur hafa stjórnvöld samþykkt það sérstaklega að fimmfalda tekjuþakið fyrir þá sem voru ekki í námi síðasta vetur. Var það gert í ljósi þeirra aðstæðna sem sköpuðust í atvinnulífinu vegna kórónuveirufaraldursins enda hefur atvinnuleysi aukist og líklegt að margir sem misst hafa vinnuna vilji nota tækifærið og setjast á skólabekk.“

Þak á lánstíma og upphæðum

Um nýju lánareglurnar segir Jóhann að beri hæst að nú er mögulegt að breyta hluta námslána í styrk, en þá þarf lánþegi að ljúka náminu á réttum tíma. Fá má undanþágur vegna sérstakra aðstæðna, s.s. barneigna eða veikinda, og auk þess gefst námsmönnum viðbótarsvigúm upp á 6 til 24 mánuði umfram skipulag námsins, og hægt að breyta 30% höfuðstóls og verðbóta námslána í styrk ef öllum skilyrðum er fullnægt.

Nýju reglurnar eru eins að því leyti að ákveðið þak er á því hve lengi fólk getur fengið lán vegna náms og almenna viðmiðið að skólinn veiti námslán í allt að 14 annir eða 7 ár, þó með möguleika á aukalánum í sérstökum tilvikum, s.s. vegna doktorsnáms. Einnig er þak á heildarupphæð skólagjaldalána og segir Jóhann að fólk þurfi að vara sig á því að t.d. klára ekki skólagjaldakvótann í grunnnámi og eiga þá ekkert eftir fyrir skólagjöldum í meistaranámi ef það er stefnan.

Jóhann minnir jafnframt á mikilvægi þess að lánþegar átti sig á endurgreiðslubyrðinni að námi loknu. Byrja þarf að borga af námslánum þegar ár er liðið frá námslokum og geta þeir lánþegar sem ljúka námi áður, eða á því ári sem þeir verða 35 ára, valið tekjutengingu. Hjá þeim sem ljúka námi eftir 35 ára aldurinn er endurgreiðslutími háður lántökufjárhæð og þarf lánþegi almennt að hafa greitt upp námslán sín fyrir 65 ára aldur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: