Björg Árnadóttir, rithöfundur og ritlistarkennari hefur óbilandi trú á lækningamætti vatnsins. Hún rekur Stílvopnið og heldur margskonar ritlistarnámskeið bæði fyrir fólk og fyrirtæki. Hún hefur búið í Þorlákshöfn, á Snæfellsnesi, í Skútastaðahreppi og Skilmannahreppi en er núna búsett í Reykjavík. Þó hún hafi ekki komist eins mikið út á land og hún hefði viljað þá gefur hún sér góðan tíma í sundi daglega.
Hvernig myndir þú lýsa þínu sumri?
„Þetta var óvenjulegt sumar af því að ég fór ekkert til útlanda og varla út úr bænum. Ég vann alla daga sumarsins nema fimm. Ég hef verið að skrifa skáldsögu og að undirbúa námskeið vetrarins. Því fór ég sem dæmi ekki í Mývatnssveitina mína í sumar. Mig langar að benda lesendum á einn stað sem ég heimsótti; veitinga- og gististaðinn Brimslóð niðri við sjóinn á Blönduósi sem frændi minn og kona hans reka, Gísli Egill Hrafnsson og Inga Elsa Bergþórsdóttir. Þau eru miklir matgæðingar og hafa gefið út matreiðslubækur á mörgum tungumálum. Þau leita ekki langt yfir skammt að hráefnum í matargerðina en þekkingu hafa þau frá námsárum sínum í Frakklandi. Staðurinn er sérstakur og maturinn hrein upplifun.“
Hvað getur þú sagt mér um sundspretti þína á hálendi Íslands?
„Hitt ferðalag mitt í sumar var í Hólaskjól í Skaftártungum þar sem ég var á mannræktarnámskeiði með öðrum konum og dró þær flestar með mér út að synda í hyl við foss sem ég veit ekki hvað heitir. Ég fer daglega í kalda potta í laugunum og þar sem ég hef myndað þol gegn kulda finnst mér fátt betra en að baða mig í ám og lækjum á hálendinu.
Ég fer nær daglega í Laugardalslaugina þar sem ég lyfti meðhöfðum lóðum ofan í lauginni og hleyp og hoppa um leið. Því næst syndi ég svolítið, fer í saltpottinn, gufuna og kalda pottinn. Ég er þarna úti við allt upp í tvo tíma á dag, spjalla við fólk og er viss um að í vatninu vinni ég líka mikla tilfinningavinnu. Nú er ég tekin upp á því að hlaupa í sundfötunum í grasinu og í sandinum á strandblaksvellinum og gera svo teygjuæfingarnar mínar á gervigrasinu framan við World Class.“
Hvaðan kemur áhugi þinn á ritlist?
„Ég hef alltaf haft áhuga á ritlist enda alin upp í skrifandi fjölskyldu. Ég hefði lært ritlist hefði hún verið í boði á áttunda áratugnum. Ég valdi í staðinn að læra myndlist og finnst það í raun hafa verið afar góður undirbúningur fyrir eigin skrif og kennslu. Í gegnum myndlistina lærir maður að sjá og horfa og sem myndlistarkennari kann ég að fá fólk til að vinna. Ég kynntist hins vegar ritlistarkennslunni í Svíþjóð á níunda áratugnum og hef kennt í ýmsum löndum, oftar en ekki í jaðarsettum hópum.“
Hvað getur þú sagt mér um daglegar ferðir þínar í jarðböðin í Mývatnsveit?
„Þegar ég dvel í Mývatnssveit, en þar vann ég til dæmis í nokkur sumar við ferðaþjónustu, reyni ég að fara sem mest í Jarðböðin enda hafa þau afar góð áhrif á mig. Í ferðabók sem ég skrifaði um Mývatnssveit Lake Mývatn - people and places, er til dæmis heill kafli helgaður baðupplifunum í sveitinni. Ég man eftir fyrirhyggjusömum ferðamanni, japönskum minnir mig, sem skrifaði Upplýsingamiðstöð þetta bréf: Við hjónin hyggjumst heimsækja ykkur næsta sumar og baða okkur í vatninu. Hugsanlega mun konan mín hafa blæðingar. Kemur það að sök?“
Hvernig horfir þú á lífið?
„Ég gæti varla verið ánægðari með lífið og tilveruna. Reyndar hef ég ekki getað haldið námskeið síðan kófið byrjaði og því fylgir auðvitað kvíði að vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég hef ekki viljað setja námskeiðin mín á netið af því að þau byggja á mikilli samvinnu og nánd en ef ég neyðist til þess vegna áframhaldandi fjarlægðartakmarkana geri ég það bara.“