Gengu Fimmvörðuháls og Laugaveg nánast án farangurs

Sölvi Tryggvason og Helgi Jean Classen gengu fyrst Fimmvörðuháls og …
Sölvi Tryggvason og Helgi Jean Classen gengu fyrst Fimmvörðuháls og svo Laugaveginn með lítinn bakpoka.

Fyrirlesarinn og grínistinn, Helgi Jean Classen, eða bara maðurinn sem fór á áhrifavaldakút niður Stuðlagil, og Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður og rithöfundur fóru í athyglisverða ferð um helgina. Á föstudaginn gengu þeir Fimmvörðuháls frá Skógum yfir í Þórsmörk og svo tóku þeir Laugaveginn á tveimur dögum. 

„Við fórum frá Þórsmörk yfir í Hvanngil á laugardeginum og kláruðum svo Hvanngil yfir í Landmannalaugar á sunnudeginum. Gengum um það bil 6-7 tíma á dag. Tæplega 30 km. dagleiðir sem endaði í 85 km í heildina,“ segir Helgi í samtali við Ferðavefinn. 

Fóruð þið ekki á mettíma?

„Við slógum allavega okkar eigið met enda hvorugur gengið viðlíka vegalengdir á hálendinu í einum rykk.“

Hvað um nesti og svoleiðis?

„Það er mikilvægast að pakka nesti sem er orkuríkt og tekur lítið pláss. Til dæmis hnetur, chia fræ og 100% kakó. Svo er geggjaður matur í Þórsmörk sem fer langt með mann og við fengum að taka restina af eggjahrærunni úr morgunverðarhlaðborðinu með okkur. Splæstum svo í bakaðar baunir sem voru til sölu í Hvanngili „and the rest is history“. Það er annars ofmetið að maður þurfi að vera síétandi. Ég hafði tekið fjögurra daga beinsoðsföstu áður en við fórum og ég var bara orkumeiri ef eitthvað er.“

Þið voruð eiginlega ekki með neinn farangur?

„Við sáum að það spáði mjög góðu veðri. Þegar maður hefur tekið kuldaþjálfun þá sparar maður sér mörg klæðin því hitinn kemur að innan. Við deildum lítilli tösku sem við skiptumst á að bera. Og í skálunum þarf engan svefnpoka því þeir eru hlýir og góðir. Farangursleysið hjálpaði líka til við að vera fráir á fæti. Fólkið sem var útbúið eins og það væri á leiðinni á Everest horfði undrandi á okkur og við horfðum undrandi til baka á Everest-farana,“ segir Helgi. 

Á dögunum birti Smartland lista yfir eftirsóttustu piparsveina landsins og voru Helgi Jean og Sölvi á þeim lista. Þegar Helgi er spurður að því hvernig hafi verið að vera með öðrum eftirsóttasta piparsveini Íslands á ferð segir hann að það hafi verið einstakur heiður. 

„Það var einstakur heiður fyrir mig að vera í þessum virta félagsskap. Og meira að segja upp á miðju hálendi þá hjaðnaði eftirsóknin ekki neitt. Hún jókst ef eitthvað er.“

Um hvað töluðuð þið á leiðinni?

„Svona ferðalag er betri en mörg ár af þerapíu. Á 85 kílómetrum koma margar tilbreytingalausar stundir og til að forðast leiðindin kemur eiginlega bara allt upp úr manni sem er ósagt.“

Hvað var skemmtilegast?

„Að koma niður í Þórsmörk eftir Fimmvörðuhálsinn er besti endir á göngu sem ég veit. Að lenda þarna í sólsetrinu með birtuna hárfína er göldrótt. Milljón dollara virði.“

Hafið þið labbað þetta áður? 

„Ég hef farið núna þrisvar á Laugaveginn og þrisvar á Fimmvörðuhálsinn, en Sölvi hefur bæði farið Fimmvörðuhálsinn og tekið þátt í Laugavegshlaupinu.

Ævintýrið er í kyrrðinni sem er í náttúrunni. Hin æfingin er svo að geta sofið í hrotunum í skálunum og komast ekki á Instagram nema bara stundum. Annars eru ekki allir svo heppnir að hafa fæðst á Íslandi og eini miðinn til að taka þátt í svona veislu er að geta gengið. Og besta æfingin er einmitt að byrja að ganga.“ 

View this post on Instagram

Það kom upp þessi hugmynd hjá okkur Sölva í fyrra að taka Fimmvörðuhálsinn og Laugaveginn í einum túr. Það var svo á föstudaginn að við lögðum af stað frá Skógum og vorum lentir á sunnudeginum í Landmannalaugum með 85 km. á bakinu. Eftir gott bað náðum við svo rútunni heim -og horfðum á úrslitaleikinn í Meistaradeildinni um kvöldið. Eftir uppákomuna með einhyrninginn í Stuðlagili þá þorði ég ekki öðru en að vera tvíhyrndur í þessu ferðlagi - og var með þennan geggjaða víkingahjálm sem gaf mér mikinn kraft. Til að tryggja ítrasta öryggi var Sölvi svo með grímu sem þolir allt. Þetta var ein geggjuð helgi með öllu best-of í íslenskri náttúru. Betri stofu móment ársins var án vafa að koma niður í Þórsmörk í sólsetrinu í gylltri birtu sem mátti hnoða eins og deig. Mest krefjandi við ferðina var svo hvað Instagram datt oft út - og má vara fólk við því sem ferðast um þessar slóðir. Eins var mikil æfing að ná að sofa í hrotunum í skálanum í Hvanngili. Annars eru svona göngutúrar akkúrat það sem lífið snýst um. Og ég hvet alla sem hafa verið með þetta á stefnuskránni að kýla á þetta. Þótt að auðvitað skipti máli að vera í góðu gönguformi. En það má einmitt þjálfa með því að ganga. Gæti ekki verið einfaldara! Takk Ísland!

A post shared by Helgi Jean (@helgijean) on Aug 24, 2020 at 3:30am PDT

mbl.is