Búið er að landa rúmlega 100 þúsund tonnum af makríl á vertíðinni, en alls hafa íslensk skip heimild til að veiða um 168 þúsund tonn í ár.
Reikna má með að makrílvertíðin standi fram yfir miðjan september, en þá taka við veiðar á norsk-íslenskri síld hjá uppsjávarskipunum.
Fram kemur á heimasíðu Fiskistofu að rúmlega 41 þúsund tonn af makríl hafa verið veidd í íslenskri lögsögu, tæplega þúsund tonn veiddust sem meðafli á kolmunnaveiðum við Færeyjar og rúmlega 58 þúsund tonn utan landhelgi, það er í Síldarsmugunni austur af landinu. Þar hafa rúmlega 50 þúsund tonn af makríl veiðst í ágústmánuði eða um helmingur þess sem íslensk skip hafa veitt í ár.
Undanfarið hefur mest veiðst nálægt norsku lögsögunni og fiskurinn gjarnan horfið inn fyrir mörkin. Dagamunur hefur verið á aflabrögðum, mjög gott einn daginn, en svo lítið þann næsta, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.