Jacob Blake, 29 ára gamall Bandaríkjamaður sem var skotinn sjö sinnum í bakið af lögreglu á sunnudag, er lamaður fyrir neðan mitti að sögn föður hans.
Í kjölfar skotárásarinnar hafa mótmæli sprottið upp í Kensosha í Wisconsinríki þar sem atvikið átti sér stað. Blake var óvopnaður og á leið í bifreið sína þegar lögregla skaut hann.
Samkvæmt BBC hefur faðir Blakes nú greint frá því að sonur hans hafi orðið fyrir mænuskaða vegna skotanna. Ekki er vitað hvort lömunin sé varanleg.
„Hvað réttlætti þessi skot? Hvað réttlætti að gera þetta fyrir framan barnabörnin mín? Hvað erum við að gera?“ spurði Jacob Blake eldri í samtali við fjölmiðla vestanhafs.
Blake var fluttur alvarlega særður með sjúkraflugi á sjúkrahús í Milwaukee. Síðdegis í gær sögðu ættingjar að líðan hans væri betri að loknum skurðaðgerðum.
Í myndskeiði sem hefur verið dreift á samfélagsmiðlum sjást lögreglumenn beina byssum sínum að manninum þar sem hann gengur hringinn í kringum skutbifreið sem stendur fyrir utan íbúðarhús. Þegar hann opnar dyr bifreiðarinnar og beygir sig sést lögreglumaður þrífa í bol hans og skjóta. Á myndskeiðinu má heyra sjö skothvelli á sama tíma og óp og öskur heyrast í fólki allt í kring.