Í íslenskri lögsögu mældust tæplega 546 þúsund tonn af makríl í sumar eða 4,38% af því sem mældist í leiðangri á norðurslóðir.
Vísitala lífmassa makríls á leiðangurssvæðinu var metin alls 12,3 milljónir tonna í ár sem er 7% hækkun frá árinu 2019 og er mesti lífmassi sem mælst hefur frá upphafi þessara leiðangra árið 2007, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Síðustu ár hefur dregið úr vestlægum göngum makríls og minna verið af fiskinum í íslenskri og grænlenskri lögsögu. Hlutfallið á Íslandsmiðum hefur lækkað síðustu þrjú ár og til samanburðar má nefna að árin 2015 og 2017 var það um 37% af heildinni. Miðað við vísitölur má áætla að tæplega 3,9 milljónir tonna af makríl hafi verið í lögsögunni þegar mest var árið 2017 eða um sjö sinnum meira en í ár.