Stjórn Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi (SAR) skorar á ríkisstjórnina að endurskoða þær sóttvarnareglur sem nú gilda á landamærum án tafar til að auðvelda erlendum ferðamönnum að heimsækja Ísland og um leið takmarka efnahagsleg áhrif veirunnar.
Þetta kemur fram í ályktun sem var samþykkt að loknum stjórnarfundi samtakanna í gær.
Þar segir að ákvörðun um að loka landinu nánast með því að skylda fólk í tvær skimanir og sóttkví virðist hafa verið tekin án samráðs við atvinnulífið í landinu og án rökstuðnings.
„Ríkisstjórn Íslands hefði hæglega getað valið mildari útgáfu við skimun á landamærum án þess að loka fyrir flæði ferðamanna með svo íþyngjandi sóttvörnum. Til að mynda hefði verið hægt að skima alla, jafnvel tvisvar en látið duga að setja Íslendinga í sóttkví. Ef þær ráðstafanir gæfu ekki tilætlaðan árangur hefði á seinni stigum alltaf verið hægt að herða sóttvarnir í takt við þær reglur sem nú eru í gildi,“ segir í ályktuninni.
„Eftir gjaldþrot WOW Air og í kjölfar COVID-19-faraldursins hefur atvinnuleysi í landinu stóraukist og einna verst er ástandið hér á Suðurnesjum eins og fréttir undanfarinna daga sýna og telur stjórn SAR að botninum sé ekki náð. Með ákvörðun ríkistjórnarinnar fyrir tæpum tveimur vikum síðan, þá er fyrirséð að ferðaþjónusta í landinu kemur að mestu leyti til með að leggjast af, alla vega tímabundið með auknu atvinnuleysi og kostnaði sem erfitt er að reikna til enda.“