Hef óbilandi trú á framtíðinni

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra snarast inn á ríkisstjórnarfund og …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra snarast inn á ríkisstjórnarfund og grípur þétt um veskið. Morgunblaðið/Hari

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti á dögunum tillögur um breytingar á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankinn hefur gert nokkra grein fyrir peningamálastefnunni. Bjarni er hins vegar líka efnahagsráðherra og efnahagsstefnan í ljósi gerbreyttra aðstæðna blasir ekki við. Er hún að taka á sig mynd?

„Við erum alltaf að glíma við sömu lögmálin. Við þurfum áfram að tryggja að það sem við erum að gera í ríkisfjármálunum tóni vel við það sem Seðlabankinn er að gera. Það hefur tekist vel á undanförnum árum, en dugar ekki eitt og sér, heldur þarf vinnumarkaðurinn að ganga í sama takti. Við þurfum að viðhalda góðu samstarfi við vinnumarkaðinn og í augnablikinu þá bætist það við aðra óvissu hversu mikinn frið er hægt að halda við vinnumarkaðinn, svona miðað við þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið að undanförnu.

Það er ágætt að hafa það í huga sem grunn að góðum árangri, að allt eru þetta nauðsynleg hráefni í góða uppskrift þjóðarkökunnar. Að þessir þrír aðilar gangi í takt.“

Boltinn hjá vinnumarkaðnum

Formaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, drap um daginn á launafrystingu. Komast menn eitthvað áfram með slíkar hugmyndir við aðila vinnumarkaðarins?

„Ég held að hann hafi nú aðeins verið að mæla almenn og augljós sannindi um að þegar hagkerfið er í niðursveiflu og glímir við áföll, að þá er ekki mikið svigrúm til þess að fara að auka við launakostnað. En það verða að vera þeir, sem um þetta véla, sem finna hjá sjálfum sér að það séu þeirra hagsmunir að reyna að stjórna atburðarásinni. Þessi bolti er hjá vinnumarkaðnum, hvernig þeir vilja spila úr þessum löngu kjarasamningum sem voru gerðir við allt aðrar forsendur en við horfum upp á nú. Ég held að það sé ekki líklegt til árangurs að þeim sé sagt fyrir verkum, en ég held líka að það sé sjálfsagt að vekja athygli á þeim almennu sannindum að kjarasamningar snúast um að skipta því sem er til skiptanna. Og að þegar allar forsendur breytast og minna er til skiptanna, þá geti menn tæplega setið við sinn keip og krafist þess að það sem um var samið skili sér. Því verður á endanum skilað, en spurningin er hvernig og hvenær.“

Tímabundin efnahagsstefna

En hvað segirðu þá um þá gagnrýni, sem heyrst hefur úr atvinnulífinu, að Bjarni kynni nýja ríkisfjármálastefnu, þar sem áfram skal haldið með öll fyrri verkefni og bæta við útgjöldum vegna kórónuveirunnar, þannig að hið opinbera heldur ótrautt áfram en einkageirinn tekur höggið?

„Þessu svörum við í okkar uppfærðu fjármálastefnu, að það er hægt að hafa mikil og jákvæð áhrif þegar hagkerfið skreppur svona saman, með því að beita ríkisfjármálunum. Að það gerum við með því að halda okkar striki og sætta okkur við hallann. En þetta virkar bara meðan áfallið varir. Þegar við höfum fundið botninn og erum að nálgast eitthvert nýtt jafnvægi, þá er þetta ekki jafngóð efnahagsstefna. Og þegar hagkerfið er komið í jafnvægi er alveg klárt að það er ekki góð efnahagsstefna að halda uppi eftirspurn í hagkerfinu með því að reka ríkið með halla. En við teljum að þetta sé árangursrík leið núna til þess að takast á við mesta áfallið og muni til lengri tíma skila sér í hærra atvinnustigi og viðhalda kaupmætti, muni draga úr neikvæðum afleiðingum samdráttarins og landsframleiðslan verði hærri.

Ef við færum hina leiðina, ef menn líta á það sem kost að fara í mikinn niðurskurð, þá held ég að við myndum upplifa dýpri kreppu og það tæki okkur lengri tíma að endurheimta landsframleiðsluna, sem núna tapaðist.

En þetta gildir til skamms tíma. Við veðjum á að þetta sé tímabundið ástand.“

Þolum nokkur ár af hallarekstri

„Ef þessi kreppa dregst á langinn þá er ekki hægt að orða það með einfaldari hætti en að segja: við höfum ekki efni á þessu, við höfum ekki efni á allri þessari opinberu þjónustu og þurfum að aðlaga okkur að breyttum veruleika. Rétt eins og hin hagsýna húsmóðir myndi gera. Að heimilið hefði ekki lengur efni á þeim lífskjörum sem heimilismenn hefðu tamið sér. Fyrir þeim væri engin innistæða. Þau lífskjör birtast okkur hvarvetna dagsdaglega, frá leikskólastiginu inn á hjúkrunarheimilin, útgjöldin renna út í gegnum almannatryggingar, menntastofnanir, heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið, þessa stóru útgjaldaliði okkar. Ef hagvöxtur lætur á sér standa, þá náum við ekki endum saman í alltof mörg ár.

Staðan nú er hins vegar þannig að við þolum nokkur ár af hallarekstri án þess að skuldahlutföllin stefni í mikið óefni. En það er algerlega háð því að landsframleiðslan taki við sér. Spegilmyndin af því sem er að gerast núna er mikil viðspyrna einkageirans um leið og kostur er. Við verðum að endurheimta störfin og umsvifin í einkageiranum, sem hafa tapast og stöðvast. Stysta leiðin að því markmiði er að ferðaþjónustan taki aftur við sér.

Aðrar leiðir eru lengri eða krókóttari. Jafnvel þó við setjum mikla fjármuni í nýsköpun, rannsóknir og þróun, þá taka þau langan tíma, einstök stærri framkvæmdaverkefni geta líka hjálpað, en það eru langtímastoðir hagkerfisins, sem við verðum að horfa til.“

Óvissa útflutningsgreina

En er ekki hætta á því að ferðaþjónustan taki ekki við sér meðan veiran heldur velli og við erum að hringla í sóttvarnaraðgerðum?

„Ef við horfum til þessa árs erum við ekki að skera okkur úr í samfélagi þjóðanna hvað það varðar. Það á við um heim allan. Okkar síðustu aðgerðir eru ekki tveggja vikna gamlar og of snemmt að fullyrða um langtímaafleiðingar þeirra og þær eru til stöðugs endurmats. En ég vona auðvitað að við getum sem allra fyrst dregið úr ráðstöfunum á landamærunum og við nálgumst eðlilegt ástand hraðar.“

En það er ekki bara ferðageirinn sem er í vandræðum, sjávarútvegurinn hefur gengið betur og álið í uppnámi?

„Ég hef ekki verulegar áhyggjur af stöðu sjávarútvegsins. Eftir bankahrunið var það sjávarútvegurinn sem tók fyrst við sér og lagði grunninn að efnahagsendurreisninni. Þá eins og nú mallar hann áfram eins og góð og vel smurð ljósavél sem framleiðir gjaldeyri. Þegar vel gengur á öðrum sviðum fellur hann stundum í skuggann, en það er eftir sem áður hann sem er þessi trausta stoð.“

En álið?

„Það er mikið áhyggjuefni, en ég ætla að leyfa mér að trúa því að ytri skilyrði til álframleiðslu á Íslandi séu hagstæð. Við erum að sjá mjög öfgakenndar breytingar á mörkuðum fyrir ál og raunar einnig orkumarkaði. Mitt í þeim breytingum erum við að reyna að átta okkur á framtíðinni. Við þurfum að komast í gegnum þessa ólgu og spyrja svo hvort við höfum eitthvað fram að færa. Ég held það, með okkar hreinu orku og miklu framleiðslugetu. Ég vona að hinar ytri aðstæður breytist og þá batni útlitið skjótt. En auðvitað skiptir miklu máli að samningar takist að nýju við helstu viðskiptavini Landsvirkjunar. Þeir eru sumir með óþægilega stuttan líftíma.“

Óbilandi trú á framtíðinni

En ef kreppan dregst á langinn?

„Þegar ég lít til baka og sé áföll í okkar hagsögu, nú síðast með bankahruninu, þá sé ég land og ég sé þjóð, sem hefur á skömmum tíma náð að vinna sig út úr því sem virtist óyfirstíganleg kreppa.

Við höfum nú þegar séð krónuna vinna sína vinnu með því að auka samkeppnishæfni okkar, en tekur nýjar launahækkanir til baka og skapar þannig skilyrði fyrir útflutningsgreinarnar til að fá viðspyrnu þegar eftirspurn dregst saman. Í þessu ljósi, í sögulegu ljósi, vegna þess hvað vinnumarkaðurinn er opinn og sveigjanlegur, ásamt með þessum gjaldmiðli sem gerir sitt gagn, þá segi ég: Ég hef ótrúlega sterka tilfinningu fyrir því að okkar bíði kraftmikið vaxtarskeið þegar þessir erfiðleikar eru að baki, vaxtarskeið sem ekkert þjóðhagsmódel getur tekið inn sem breytu. Ég held að ef við komumst í gegnum þennan faraldur á næsta ári, þá sé ég fyrir mér miklu meiri vöxt en nokkrar spár gera ráð fyrir.“

En þarftu þá ekki að vera tilbúinn með sérstaka hvata til þess?

„Ég er sérstaklega að horfa til ferðaþjónustunnar þegar ég segi þetta. Gjaldmiðillinn hefur aðlagað sig nú þegar, en innviðirnir, reynslan og þekkingin er öll til staðar enn. Svo eru hinar alþjóðlegu aðstæður: vextir, staðan í fluggeiranum þar sem menn geta ekki beðið eftir að koma flugvélunum í loftið, og eldsneytisverðið þessa dagana sakar ekki, þá held ég að það geti vel gerst að við fáum mikla og skjóta endurreisn með mikilli fjölgun ferðamanna á tiltölulega skömmum tíma. Ég er ekki að spá því að það gerist á næsta ári, það er ógerningur að tímasetja viðsnúninginn, en þegar hann verður og það birtir til að nýju, þá er ég sannfærður um við munum fá – eins og áður hefur gerst – mjög kraftmikið hagvaxtarskeið sem getur varað í nokkurn tíma.

Ég trúi því að þetta sé tímabundið ástand og viðbragðshraði íslensks hagkerfis muni færa okkur kraftmeiri vöxt en menn eiga að venjast. Þrátt fyrir allt, mitt í dýpstu kreppunni, hef ég áfram óbilandi trú á framtíðinni.“

Tímasetning skattkerfisbreytinga

„Aðrir hvatar, t.d. skattalækkanir, koma auðvitað til greina og við höfum lækkað skatta talsvert nú þegar. En það fer ekki vel saman að við séum að tala fyrir lækkun launatengdra gjalda á sama tíma og öll réttindin sem þessi sömu gjöld eiga að fjármagna eru stóraukin. Eins og við höfum gert mjög myndarlega, bæði fyrir og eftir heimsfaraldurinn. Það er erfitt að ganga lengra í skattalækkunum nema menn vilji ræða hinn þáttinn.“

En hvenær er tími til skattalækkana ef ekki nú?

„Við höfum verið að lækka skatta á góðæristímanum. Við þurftum að láta tímabundna skatta eins og raforkuskattinn og auðlegðarskattinn renna út, við fórum í endurteknar lækkanir á tekjuskatti og erum búin að marglækka tryggingagjaldið, lækkuðum tolla og vörugjöld og núna síðast ákváðum við að afnema bankaskattinn. Svo spurningin um hvort aldrei sé réttur tími til þess að lækka skatta er frekar hæpin. En við höfum varið tímanum vel og valið rétta tímann.

Ég fullyrði að hefðum við ekki tekið ákvarðanir um það snemma á þessu kjörtímabili, til dæmis varðandi breytingar á tekjuskatti, sem við tiltókum í stjórnarsáttmála og lögfestum fljótt og örugglega, þá væri alls óvíst að nokkurn tímann hefði orðið af þeim. Ég efa að menn hefðu haft kjark til þess, eins og komið er, að fyrir þeim breytingum væri meirihluti í þinginu við þær aðstæður sem hafa skapast.

Þannig að mín niðurstaða er að það sé rétti tíminn til þess að lækka skatta þegar það gengur vel. Það er örugglega miklu, miklu erfiðara pólitískt – jafnvel þó svo fyrir því séu sterk efnahagsleg rök – að gera það þegar hart er í ári, því þá blasir fjárskorturinn við um allt og það tekur tíma að sýna fram á að hóflegri skattar skili sér í gegnum aukinn hagvöxt og aukin umsvif.

En svo getur líka verið skynsamlegt að taka ákvörðun um skattalækkun en láta hana taka gildi einhverju síðar. Tryggingagjaldið er gott dæmi um það, þar sem við ákváðum að gera það í tveimur skrefum. Og svo má auðvitað gera eins og átti við um tekjuskattinn, þar sem við vorum búin að ákveða okkur, en hröðuðum síðan skattalækkuninni til þess að styðja við kjarasamningana.“

Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Svo það eru engar meiriháttar skattalækkanir í kortunum?

„Ég sé ekki að við höfum svigrúm til þess í komandi fjárlagafrumvarpi. Ekki miklar skattalækkanir eða skattkerfisbreytingar, sem hefðu veigamikil áhrif á efnahagslífið hér og nú. En við erum auðvitað sífellt að reyna að bæta skattkerfið, eins og núna á haustþinginu þar sem ég mun kynna úttekt á fjármagnstekjuskattinum og virkni hans, þar sem ég vil bæta úr ýmissi ósanngirni sem þar gætir.

Það breytir ekki þeirri afstöðu minni að ég vil bæði lægri skatta og einfaldara og sanngjarnara skattkerfi. Ég vildi t.d. sjá virðisaukaskattinn lækka en fækka um leið undanþágum.“

En finnurðu fyrir þrýstingi innan kerfisins, líkt og nú verður víða vart í nágrannalöndunum, að nú þurfi að auka skattheimtuna?

„Ég get ekki sagt það. Ekki að menn leggi beinlínis til skattahækkanir. En það er eðlilegt að embættismennirnir hafi áhyggjur til næstu ára um hversu sjálfbær ríkisreksturinn er. Útgjaldastigið okkar miðast við hagvöxt síðustu ára, sem nú er horfinn.“

Aðhaldssemi og hugarfarsbreyting í opinberum rekstri

Þú minntist á það á dögunum að hið opinbera yrði við þessar aðstæður að fara betur með fé, að það þyrfti að nýta þau takmörkuðu gæði til fullnustu. En er einhver slaki þar sem draga má á?

„Hvers vegna getur ríkið ekki verið til fyrirmyndar um meðferð opinberra fjármuna? Er eitthvert tregðulögmál sem leiðir til þess að almennt er litið svo á að þar vanti töluvert upp á? Mér finnst að við eigum að taka á því með beinum hætti. Um leið og ég vil fylgja þeirri grundvallarskoðun að hið opinbera eigi ekki að vera að vasast í öðru en því sem það á að gera, þá verð ég samt að fara fram á það að þar sem ríkið hefur hlutverk með höndum, sé það að gera það eins vel og unnt er og nýti fjármuni almennings eins vel og kostur er. Það er einfaldlega frumskylda mín sem fjármálaráðherra.

Þegar maður gefur slíkum verkefnum tíma og veitir fólki tækifæri til þess að hafa áhrif þar á, að það sé forgangsmál, þá er eins og það kvikni ljós. Þetta gerðist á samráðsvettvangi um aukna hagsæld, þar sem fjöldinn allur af opinberum starfsmönnum kom að vinnunni og benti á leiðir til þess að auka hagræði í opinberum rekstri, í innkaupum, í þjónustukaupum, í sameiningu stofnana og alls kyns hagræði öðru. Þetta er líka reynsla mín hér inni í ráðuneytinu, að þegar maður setur mál á dagskrá og veitir forystu um að hrinda þeim í framkvæmd og að full alvara sé að baki, þá fer boltinn að rúlla. Besta dæmið um þetta í dag er Stafrænt Ísland. Það eru ómæld tækifæri í opinberum rekstri til þess að gera betur.“

Uppstokkun á kerfinu

Þurfa ráðherrar þá ekki að beita meira agavaldi? Ríkisendurskoðandi hefur fundið að rekstri ýmissa stofnana en samt miðar nú hægt áfram.

„Jú, en skoðum þá hvernig eftirliti með opinberu fé er háttað. Alþingi er aðallega upptekið af því hvort farið er að fjárlögum. Ef tíu milljarðar eru veittir á einhverju sviði en útgjöldin reynast tíu og hálfur, þá skoðar Alþingi hálfa milljarðinn, en það er enginn að hugsa um þessa tíu. Fjármálaráðuneytið ber ábyrgð á framkvæmd fjárlaga og við höfum verið að láta reyna á þá nýjung, sem við köllum endurmat útgjalda og spyrja hvort það sé þörf á föstum fjárheimildum eða hvort það megi gera hlutina öðruvísi, betur eða ódýrar. Ég skal alveg játa að mér hefur þótt það sækjast hægt og kerfið getur verið þunglamalegt. Við gerum allt of lítið af því að spyrja slíkra spurninga, hvort það þurfi að hugsa hlutina frá grunni eða hvað?“

Ertu þá að tala um allsherjar-uppstokkun á kerfinu?

„Ég vil beita mér fyrir viðhorfsbreytingu í kerfinu. Leiðslur geta verið ákaflega langar hjá hinu opinbera, í embættismannakerfinu, um forstöðumenn, skrifstofustjóra, deildarstjóra og svo framvegis. Ég hef enga trú á því að ég geti lamið slíkar breytingar í gegn úr mínum ráðherrastól, heldur þarf til hugarfarsbreytingu þar sem allir þurfa að koma með og búa til betra verklag og betri opinbera þjónustu.“

Ertu að segja að kerfið sé of gamaldags fyrir nútímastjórnunarhætti, að því þurfi að breyta frá rótum?

„Já, ég held það. Það á að vera viðkvæðið hér í ráðuneytinu, hverri einustu stofnun og skrifstofu hins opinbera að símanum sé svarað með orðunum: „Góðan dag, hvernig get ég aðstoðað.““

Sveitarfélög í vanda

En hafir þú áhyggjur af rekstri ríkisins, hvað má þá segja um sveitarfélögin?

„Það er erfitt að ræða um sveitarfélögin sem heild, þau eru svo mörg og mismunandi og staða þeirra ákaflega ólík. Mér finnst að sveitarfélögin hafi oft sýnt að þau geta verið snarari í snúningum en ríkið, en upp á síðkastið finnst mér við oftar sjá dæmi um verkefni sem þessar stjórnsýslueiningar rísa bara ekki undir.“

Þarf að létta einhverjum verkefnum af þeim?

„Ég er ekki mikið að hugsa um það í augnablikinu, en það má vel spyrja um ýmis verkefni sem sveitarfélögin hafa tekið við. Þrátt fyrir margra ára undirbúning varðandi flutning á málefnum fatlaðra eru samt sem áður að koma upp mjög erfið mál sem lúta að kostnaði. Annað er tengt málefnum aldraðra, þar sem sveitarfélögin eru ósátt við rekstrarkostnað hjúkrunarheimila. Við erum með hæstu útgjöld innan OECD til grunnskólastigsins, sem hlýtur að segja okkur eitthvað.“

Svo eru þessi sérstöku fjárhagsvandræði margra sveitarfélaga eftir að heimsfaraldurinn kom upp. Þú ert ekkert hræddur um að fá þau meira og minna í fangið?

„Nei, ég held ekki. Þetta er alvarlegt högg fyrir sveitarfélögin, en mörg þeirra ráða alveg við þetta. Það gildir hið sama um sveitarfélögin og ríkið, að við eigum allt undir því að hagkerfið taki að nýju við sér. Þetta ræðst á endanum að langmestu leyti af því hvaða hagvöxt okkur tekst að skapa á næstu árum. Það gildir um fjárhag sveitarfélaga og afkomu ríkisins, þar með talin skuldahlutföllin, lánstraust ríkisins getur verið undir og svo framvegis.

Stysta leiðin að nýjum hagvexti er að fá ferðaþjónustuna aftur í gang. En við þurfum að gera fleira.“

En ræðst það ekki alfarið af baráttunni við veiruna?

„Jú, en erum við ekki að tala um 70-80% samdrátt í ferðaþjónustu á heimsvísu? Þetta er ekki vandamál sem var búið til á Íslandi.“

Sundabraut er rakin leið

Aðeins aftur að sveitarfélögunum. Dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri nefndi á dögunum Sundabraut sem augljósa framkvæmd en samt bólar ekki á henni. Ertu sammála?

„Mér finnst nú bara að ég hafi verið ungur maður þegar Sundabraut var kosningamál í borgarstjórnarkosningum hér í Reykjavík. Sennilega af því að ég var ungur maður þá, það er svo langt síðan. Ég er alveg hættur að skilja hvernig þetta mál er enn óleyst á skipulagsstiginu. Ég bara skil það ekki.

Mér finnst þetta alveg rakin leið til þess að gera samgöngur við höfuðborgarsvæðið greiðari. Þegar ég kem í Grundarfjörð er ég spurður um þetta mál.“

Tekurðu undir ábendingar Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins sé úr gildi fallinn vegna vanefnda borgarinnar?

„Þegar samgöngusáttmálinn var í undirbúningi var það alveg tært af hálfu ríkisins að það þyrfti að leysa úr umferðarhnútum og klára skipulagsmál vegna nokkurra lykilsamgöngumannvirkja, sem þar eru tiltekin vegna þess að þau hafa of lengi setið á hakanum. Gagnvart ríkinu eru þetta samhangandi mál. Ef þau af einhverjum ástæðum stranda, til dæmis vegna ágreinings um skipulagsmál, þá mun það hafa beinar afleiðingar á aðrar efndir í samkomulaginu. Og ef það gerist ekki á vettvangi þeirrar stjórnar, sem verður komið á fót um þetta verkefni og fjármálaráðherra skipar formann í, þá mun það gerast í gegnum þingið. Þingið mun ekki samþykkja fjárheimildir ef það er ekki jafnvægi í efndum verkefna samningsins.

Ég held að það sé of mikið sagt að slíkar vanefndir séu þegar fram komnar að varði riftun, en punkturinn er réttur. Það getur ekki verið þannig að menn velji sér einstök verkefni eins og upp úr konfektkassa en hirði ekki um önnur.“

Hefurðu rætt þetta við borgarstjóra?

„Ég hef bara gengið út frá því að þetta sé alveg kristaltært, eitt meginatriðið í aðkomu ríkisins að málinu.“

En ef menn líta á þessar framkvæmdir sem hluta af viðnámi við efnahagslegum afleiðingum veirunnar, þá þarf nú aldeilis að láta hendur standa fram úr ermum, ekki satt?

„Jú jú. Þessu félagi verður komið á fót á næstu vikum og þá færist umræðan inn í þetta félag, þó hún lifi auðvitað áfram inni í þinginu. En ef það strandar á einstökum verkefnum í sáttmálanum, nú þá er hann strand.“

Nú var stofnaður starfshópur sem vinna skal reglulegar greiningar á efnahagslegum áhrifum valkosta í sóttvarnamálum, með tilliti til hagsmuna ólíkra samfélagshópa og geira hagkerfisins. ASÍ gagnrýndi hvernig hann var skipaður, aðrir voru hissa á að sjá Má Guðmundsson í honum. Var það eitthvað flókið?

„Nei, þetta er sérfræðingahópur, ekki hópstarf hagsmunaaðila. Ég er í þriggja flokka ríkisstjórn og í slíkum hópi þarf að vera breidd, sem endurspeglar það.“

mbl.is