Fimm nýir stjórnendur hjá Síldarvinnslunni

Grétar Örn Sigfinnsson hefur verið ráðinn rekstrarstjóri útgerðar.
Grétar Örn Sigfinnsson hefur verið ráðinn rekstrarstjóri útgerðar. Ljósmynd/Síldarvinnslan

Fimm nýir stjórnendur munu taka til starfa hjá Síldarvinnslunni í kjölfar nýrra ráðninga, en auglýst var eftir starfsfólki í tvær stöður í sumar. Fram kemur á vef fyrirtækisins að fjölmargar umsóknir bárust fyrirtækinu í stöðu rekstrarstjóra útgerðar og stöðu rekstrarstjóra uppsjávarfrystingar.

Grétar Örn Sigfinnsson hefur verið ráðinn í stöðu rekstrarstjóra útgerðar. Grétar er skipa- og véltæknifræðingur að mennt en hann hefur síðustu árin stýrt viðhaldsmálum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Hann tekur við af Karli Jóhanni Birgissyni sem lætur af störfum á haustmánuðum eftir langt starf hjá fyrirtækinu.

Ívar Dan Arnarsson.
Ívar Dan Arnarsson. Ljósmynd/Síldarvinnslan

Í fyrri stöðu Grétars hefur verið ráðinn Ívar Dan Arnarson og mun hann  stýra viðhaldsmálum í fiskiðjuverinu. Ívar er vélstjóri og rafvirki að mennt og hefur hann starfað að viðhaldsmálum í fiskiðjuverinu í þrjú ár. Áður starfaði Ívar meðal annars sem vélstjóri á Bjarti NK og Barða NK.

Geir Sigurpáll Hlöðversson hefur verið ráðinn í stöðu rekstrarstjóra uppsjávarfrystingar. Hann er verkfræðingur að mennt og hefur hann meðal annars gengt stöðu framkvæmdastjóra málmsteypu hjá Alcoa Fjarðaáli. „Mun reynsla Geir Sigurpáls nýtast afar vel við rekstur fiskiðjuversins sem verður sífellt tæknivæddara og þar sem ávallt eru gerðar meiri kröfur um öryggi starfsfólks og gæði afurða,“ segir á vef Síldarvinnslunnar.

Geir Sigurpáll Hlöðversson.
Geir Sigurpáll Hlöðversson. Ljósmynd/Síldarvinnslan

Lætur af störfum eftir 47 ár

Auk þeirra þriggja sem nefndir hafa verið hefur Hafþór Eiríksson verið ráðinn í stöðu rekstrarstjóra fiskimjölsverksmiðja. Hafþór er vél- og orkutæknifræðingur að mennt og hefur gegnt starfi verksmiðjustjóra fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað frá árinu 2016.

Hafþór Eiríksson.
Hafþór Eiríksson. Ljósmynd/Síldarvinnslan
Eggert Ólafur Einarsson.
Eggert Ólafur Einarsson. Ljósmynd/Síldarvinnslan

Fram kemur að „Hafþór tekur við starfinu af Gunnari Sverrissyni sem hefur sinnt  því frá árinu 2012 ásamt því að gegna starfi verksmiðjustjóra fiskimjölsverksmiðjunnar á Seyðisfirði. [...] Við starfi Gunnars sem verksmiðjustjóri á Seyðisfirði tekur Eggert Ólafur Einarsson. Eggert er meistari í járniðnum og gegndi áður starfi verksmiðjustjóra fiskimjölsverksmiðjunnar í Helguvík frá árinu 1998.“

„Gunnar lét af störfum 1. júlí sl. eftir að hafa starfað við fiskimjölsiðnaðinn í 47 ár. Gunnar hóf störf hjá Síldarverksmiðjum ríkisins árið 1973 og starfaði síðan hjá SR-mjöli. Hann hóf störf á Seyðisfirði árið 1982. Fáir eða engir hafa jafn mikla reynslu af störfum við fiskimjölsiðnaðinn og Gunnar og hefur Síldarvinnslan verið afar heppin að fá að njóta starfskrafta hans.“

mbl.is