Fjárlaganefnd hefur lokið við að taka út nefndarálit um fjármálastefnu, en hefur ekki lokið vinnu við álit um ríkisábyrgð Icelandair.
Þetta segir Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, í samtali við mbl.is.
„Við höfum reynt að fara mjög gaumgæfilega yfir allar umsagnir, dregið fram öll sjónarmið og tekið samtöl við helstu aðila,“ segir Willum. Erfitt sé að segja til um hvenær nefndarálit um ríkisábyrgð muni liggja fyrir.
„Það er ljóst að það er gríðarleg vinna sem liggur að baki í þessu ferli. Það þarf að lágmarka áhættu ríkissjóðs og almennings, um leið og það er verið að tryggja almenningshagsmuni.
Þetta er vandasamt og þess vegna gefum við þessu þann tíma sem þarf í þetta mál.“