Lögregluyfirvöld í Portland í Oregonríki í Bandaríkjunum skutu í gærkvöldi til bana Michael Reinoehl, sem grunaður er um að hafa skotið mótmælanda til bana í borginni á dögunum. Þegar lögregla ætlaði að handtaka manninn og flytja í varðhald kom til skotbardaga sem endaði með því að lögregla skaut manninn og lést hann samstundis.
Hinn 29. ágúst er Michael Reinoehl, sem var liðsmaður Antifa-samtakanna í Bandaríkjunum sem berjast gegn því sem samtökin telja uppgang fasisma vestra, sagður hafa skotið stuðningsmann Donalds Trumps, Aron J. Danielsson, til bana.
Reinoehl hefur verið stórtækur í mótmælum í Portlandborg síðustu daga og er sagður hafa aðstoðað við skipulagningu mótmælanna, sem beint er gegn lögreglu. Þá hafði hann sagt á samfélagsmiðlum síðustu daga að hann óttaðist ekki að þurfa að beita ofbeldi, málstað sínum til stuðnings. „Við viljum ekki þurfa að grípa til ofbeldis en við munum ekki flýja undan því heldur,“ sagði Reinoehl í instagramfærslu nýverið.
Mikil mótmæli hafa verið í Portland síðustu daga, líkt og víðar um Bandaríkin, þar sem lögregluofbeldi og kerfisbundinni kynþáttahyggju er mótmælt. Þar takast á bæði þeir sem mótmæla lögreglunni og framgöngu hennar í garð svartra og öfgahægrisinnaðir stuðningsmenn Trumps Bandaríkjaforseta.
Víða í Portland hefur komið til ofbeldis milli stuðningsmanna Trumps og þeirra sem mótmæta kynþáttahyggju í Bandaríkjunum. Þá eru stuðningsmenn Trumps sagðir hafa keyrt upp að mótmælendum og skotið litboltum (e. paintball) að þeim og þeir svarað með því að kasta grjóti og öðrum lausamunum í stuðningsmenn Trumps.
Gríðarleg spenna er víða um Bandaríkin í aðdraganda forsetakosninganna sem fram fara eftir um tvo mánuði. Lögregluyfirvöld í nokkrum ríkjum segja spennuna milli stuðningsmanna repúblikana og demókrata vera að aukast og muni líklega halda áfram að aukast eftir því sem nær dregur kjördegi.