Fréttaflutningur Ríkisútvarpsins af því að sex núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja hafi réttarstöðu sakborninga í rannsókn héraðssaksóknara á starfsemi fyrirtækisins í Namibíu, er gagnrýndur harðlega og hann sagður vandræðalegur í bréfi sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sendi starfsfólki fyrirtækisins og birt var á vefsíðu Samherja í morgun.
„Ég tel óhætt að fullyrða að Ríkisútvarpið hafi aldrei lagst jafn lágt í fréttaflutningi og með þessari frétt. Í því sambandi vekur athygli að enginn annar fjölmiðill fetar þessi niðurlægingarspor Ríkisútvarpsins í myndbirtingum.“
Birtar voru myndir af þeim sem réttarstöðu sakbornings hafa en þar á meðal er Þorsteinn sjálfur og Jóhannes Stefánsson, fyrrum starfsmaður Samherja, sem greindi frá ásökunum á hendur fyrirtækinu í þætti Kveiks á síðasta ári.
Telur Þorsteinn að tilgangur þessarar myndbirtingar RÚV, af annars óþekktum starfsmönnum fyrirtækisins, hafi verið að valda sem mestum skaða.
„Menn þurfa ekki að velkjast í neinum vafa um að eini tilgangur með þessari myndbirtingu, í annars afar innihaldsrýrri frétt, var að valda sem mestum skaða. Er þetta enn einn vitnisburðurinn um hnignun fréttastofu Ríkisútvarpsins.“
Hann segir að enginn grundvöllur sé fyrir ásökunum um saknæma háttsemi Samherja í Namibíu, jafnvel þótt ýmis mistök hafi verið gerð í þeim rekstri og að ekki hafi verið fullnægjandi eftirlit með starfseminni þar.
„Eins og ég hef áður sagt þá tel ég að það sé enginn grundvöllur fyrir ásökunum um saknæma háttsemi vegna starfseminnar í Namibíu, jafnvel þótt ýmis mistök hafi verið gerð í þeim rekstri og ekki hafi verið fullnægjandi eftirlit með starfseminni þar, eins og komið hefur fram.“