Jacob Blake, svartur bandarískur karlmaður sem lögreglumenn í borginni Kenosha í Wisconsinríki skutu sjö sinnum í bakið, lýsir sig saklausan af ákærum sem lögregla lagði fram áður en atvikið átti sér stað.
Blake, sem er á sjúkrahúsi og sagður lamaður fyrir neðan mitti, er ákærður fyrir að hafa farið inn á eign annars í leyfisleysi, kynferðisbrot og óspektir sem fyrrverandi kærasta hans hefur sakað hann um. Fram kemur í ákærunni að konan saki hann um að hafa brotið kynferðislega gegn sér í maí og stolið greiðslukorti og bíllyklum þegar hann flúði vettvang.
Ákærurnar voru lagðar fram í júlí og tengjast ekki skotárásinni sem varð 23. ágúst. Búist er við að réttarhöld yfir honum í málinu hefjist síðar á þessu ári. Samkvæmt BBC var Blake eftirlýstur vegna ákæranna þegar hann var skotinn af lögreglu.
Blake kom fyrir dómara á föstudag á myndbandsfundi frá sjúkrahúsinu og lýsti sig saklausan af ákærunum.