Hafa fjárfest í tækjum fyrir um milljarð króna

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, segir að undanfarið hafi eftirspurn …
Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, segir að undanfarið hafi eftirspurn vaxið og leitað aftur í eðlilegt horf í kjölfar hremminga kórónuveirufaraldursins.

Sú áskor­un sem ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur stend­ur frammi fyr­ir í dag er ann­ars eðlis en í fjár­málakrepp­unni fyr­ir rösk­um ára­tug.

Auk­in tækni­væðing og styrk­ing fé­lags­ins í veiðum og vinnslu á bol­fiski hef­ur hjálpað Loðnu­vinnsl­unni á Fá­skrúðsfirði að tak­ast á við áskor­an­ir und­an­far­inna miss­era. Tækn­in hef­ur gert starf­sem­ina skil­virk­ari og bol­fisk­ur­inn rennt fleiri stoðum und­ir rekst­ur­inn og gert hann sveigj­an­legri.

Þetta seg­ir Friðrik Mar Guðmunds­son, fram­kvæmda­stjóri Loðnu­vinnsl­unn­ar. „Með tækni­væðingu síðustu þriggja ára höf­um við náð að auka af­kasta­getu bol­fisk­vinnsl­unn­ar um 100% með óbreytt­um fjölda starfs­manna og sam­hliða því styrkt okk­ur í þorskkvóta. Mak­ríll­inn held­ur þó áfram að vera mik­il­væg­ur fyr­ir okk­ur, sem og kol­munni og loðna,“ út­skýr­ir hann.

Síðasta almanaks­ár var það besta í sögu fé­lags­ins og nam LVF þá um tveim­ur millj­örðum króna. „Það ár gekk hér um bil allt upp. Brest­ur varð í loðnu­veiðum en við átt­um birgðir af loðnu­hrogn­um frá ár­inu á und­an og vor­um þeir einu í heim­in­um sem gátu þjónað markaðinum. Aldrei hef­ur fallið úr dag­ur hjá okk­ur því bol­fisk­ur­inn hef­ur fyllt upp í skarðið þegar upp­sjáv­ar­teg­und­irn­ar skort­ir,“ seg­ir Friðrik og und­ir­strik­ar að það virðist ekki annað ganga í dag en að bæði nýta mögu­leika tækn­inn­ar eins og frek­ast er unnt og hafa starf­sem­ina fjöl­breytta svo að sveifl­ur inn­an teg­unda og breyti­leg­ar aðstæður á er­lend­um mörkuðum séu auðveld­ari viðfangs.

„Þetta viðhorf stang­ast á við það sem markaðssér­fræðing­ar vilja stund­um halda fram; að fyr­ir­tæki eigi að sér­hæfa sig sem mest og ná sem best­um ár­angri á af­mörkuðu sviði, en í sjáv­ar­út­vegi þurfa fyr­ir­tæki þvert á móti að vera í sem flestu til að geta mætt sveifl­un­um,“ seg­ir hann. „Niður­skurður og kjarn­a­starf­semi eru voðal­ega flott orð og eiga kannski við í rekstri banka, en ekki í okk­ar grein.“

Til að lifa af þarf að nota nýj­ustu tækni

Loðnu­vinnsl­an rek­ur í dag fiski­mjöls­verk­smiðju, síld­ar­sölt­un, upp­sjáv­ar­frysti­hús og bol­fisk­frysti­hús og ger­ir út þrjú skip: flottrolls- og nóta­veiðiskipið Hof­fell SU 80, tog­ar­ann Ljósa­fell SU 70 og línu­bát­inn Sand­fell SU 75 en að auki á út­gerðin tæp­an helm­ings­hlut í króka­veiðibátn­um Hafra­felli SU 65. Fé­lagið er það eina á Íslandi sem fram­leiðir saltaða síld. Mælt í magni er kol­munni fyr­ir­ferðarmesta teg­und­in í starf­sem­inni og hef­ur LVF á und­an­förn­um árum að jafnaði tekið á móti 30 til 50.000 tonn­um af kol­munna til bræðslu ár hvert.

Sam­an­lagt hef­ur LVF fjár­fest í nýj­um vinnslu­tækj­um fyr­ir um það bil millj­arð króna á und­an­förn­um þrem­ur árum. Eignaðist fyr­ir­tækið m.a. full­kom­inn sjálf­virk­an pökk­un­ar­búnað og tvær vatns­skurðar­vél­ar frá Völku. Í haust bætt­ust síðan við nýj­ar flæðilín­ur.

Ljósafell SU 70.
Ljósa­fell SU 70.

Friðrik seg­ir að með bættri tækni sé ekki aðeins verið að auka af­köst held­ur einnig auka gæði og nýt­ingu. Full­kom­inn vinnslu­búnaður­inn mynd­grein­ir hvert flak og sker af ná­kvæmni til að búa til bita af þeirri stærð og gerð sem kaup­and­inn ósk­ar eft­ir þannig að sem minnst fari til spill­is. „Markaður­inn er með alls kon­ar ósk­ir um þykkt, lengd, breidd og þyngd fisk­bit­anna og hægt að full­nægja öll­um þess­um þörf­um á ein­fald­an hátt með nýju vél­un­um.“

Seg­ir Friðrik ekki hægt að segja til um hversu fljótt fjár­fest­ing­in borg­ar sig. „En í okk­ar geira er ekki hægt að lifa af öðru­vísi en að nýta sér nýj­ustu tækni á hverj­um tíma.“

Markaður­inn að leita aft­ur í eðli­legt horf

Kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn setti strik í reikn­ing­inn í dag­legri starf­semi LVF og þurfti strax í mars að skipta starfs­fólki í aðskild­ar vakt­ir. „Þetta voru mjög erfiðir tím­ar fyr­ir okk­ur öll, og gott þegar ástandið varð aft­ur eðli­legt í júní,“ seg­ir Friðrik.

Á sama tíma urðu svipt­ing­ar á mörkuðum og nefn­ir Friðrik að þegar verst lét hafi orðið 90% sam­drátt­ur í sölu á fersk­um hnökk­um og verð lækkað um 15%. Skýrist það af því að víðast hvar þurftu veit­ingastaðir að skella í lás og stór­markaðir lokuðu fisk­borðum sín­um til að lág­marka snert­ingu við hrá­efnið og sam­gang á milli starfs­fólks og viðskipta­vina. Hjá LVF varð úr að skipta tíma­bundið yfir í fram­leiðslu á laus­fryst­um bit­um enda gaf sá markaður mun minna eft­ir. Varði sú breyt­ing í fjór­ar vik­ur og byrjaði þá fersk­fisk­markaður­inn að taka við sér á ný.

Jafnt og þétt eru kaup­end­ur að bragg­ast og seg­ir Friðrik að und­an­farið hafi eft­ir­spurn vaxið og leitað aft­ur í eðli­legt horf. „Á því eru þó ákveðnar und­an­tekn­ing­ar, eins og t.d. á markaði fyr­ir bæði sprautu­saltaðan fisk og salt­fisk. Þar er allt stopp. Sjó­frysti fisk­ur­inn var líka lengi að taka við sér en er nú að mestu kom­inn til baka.“

„Við klár­um okk­ur“

Sú áskor­un sem ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur stend­ur frammi fyr­ir í dag er ann­ars eðlis en í fjár­málakrepp­unni fyr­ir rösk­um ára­tug. Hag­kerfi helstu viðskiptaþjóða hafa orðið fyr­ir skakka­föll­um og þykir ljóst að efna­hags­sam­drátt­ur og mikið at­vinnu­leysi muni ekki ganga að fullu til baka á allra næstu miss­er­um. „Mikið at­vinnu­leysi þýðir að kaup­mátt­ur neyt­enda fer minnk­andi og til lengri tíma verðum við aldrei sterk­ari en viðskipta­vin­ir okk­ar,“ seg­ir Friðrik og minn­ir á að í fjár­málakrepp­unni hafi krón­an gefið meira eft­ir svo að dæmið horfði allt öðru­vísi við ís­lensk­um út­flutn­ings­grein­um þá en í dag.

En Friðrik er ekki á þeirri skoðun að stjórn­völd þurfi að hlaupa und­ir bagga með sjáv­ar­út­veg­in­um eða létta byrðum af grein­inni. „Þjóðarbúið hvíl­ir á þrem­ur meg­in­stoðum: ferðaþjón­ust­unni, ál­ver­un­um og sjáv­ar­út­veg­in­um. Í dag eru álfram­leiðend­ur í mikl­um vanda enda ál­verð lágt, og ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæk­in í ómögu­legri stöðu. Aðstæðurn­ar eru krefj­andi fyr­ir sjáv­ar­út­veg­inn en við klár­um okk­ur og ráðum við þessa tíma­bundnu erfiðleika. Íslensk sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki hafa enda sýnt það margsinn­is í gegn­um árin að þau eru ótrú­lega fljót að laga sig að breytt­um aðstæðum.“

Hins veg­ar væri það ánægju­legt ef tæk­ist að semja við rúss­nesk stjórn­völd um að aflétta inn­flutn­ings­banni á sjáv­ar­af­urðum sem nú hef­ur varað í fimm ár. Eins og les­end­ur muna spruttu upp deil­ur á milli Evr­ópu og Rúss­lands í kjöl­far inn­rás­ar Rússa inn á Krímskaga og leiddi m.a. til þess að ráðamenn í Kreml lokuðu á inn­flutn­ing á evr­ópsku sjáv­ar­fangi. Kom ákvörðun Rússa sér­stak­lega illa við ís­lenska viðskipta­hags­muni en olli öðrum Evr­ópuþjóðum hlut­falls­lega minna tjóni. „Rúss­ar halda áfram að selja Evr­ópu eldsneyti og Þjóðverj­ar halda áfram að selja Rúss­um bif­reiðar, en ís­lensk sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki misstu marga af sín­um mik­il­væg­ustu viðskipta­vin­um.“

Viðtalið við Friðrik Mar var fyrst birt í 2300 míl­um, sér­blaði Morg­un­blaðsins um sjáv­ar­út­vegs­mál, 29. ág­úst.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: